Hvítárvatn

Frá Fremstaveri til Árbúða á Kili.

Þetta er hluti hins forna Kjalvegar. Bílvegurinn liggur um Bláfellsháls vestan Bláfells en við förum austan fjallsins, þar sem engir jeppar geta verið á ferð. Við fylgjum bílvegi á stuttum kafla milli brúa á Hvítá og Svartá, og förum svo síðasta spölinn um gróna bakka Svartár. Voldugt Bláfell er einkennisfjallið, en á norðurleið er bezt útsýni norður á Kerlingarfjöll. Síðari hluta leiðarinnar höfum við Langjökul og jaðarfjöll hans á vestri hönd, svo og Hvítárvatn.

Í Bláfelli bjó Bergþór tröll. Er hann var á leið úr byggð í helli sinn, sótti að honum þorsti. Hann áði við Bergstaði og bað húsfreyju að gefa sér vatn. Á meðan hún sótti vatnið klappaði Bergþór ker mikið í klöpp, sem bærinn er kenndur við og lagði á að í því myndi aldrei frjósa eða þrotna sýran.

Förum frá fjallaskálanum í Fremstaveri í 280 metra hæð eftir reiðslóð austur og norður með fellinu um Miðver og Innstaver milli Bláfells og Hvítár. Síðan norður mýrarnar í Lambafellsveri, sem geta orðið anzi blautar í rigningum. Förum norður fyrir Lambafell og vestur að skálanum vestan við Hvítárbrú. Næst förum við yfir brúna, förum norður með veginum og tökum síðan vinstri slóðina um Svartártorfur að Hvítárnesi. Við förum af veginum, þegar við komum að Svartá og fylgjum árbökkunum að austanverðu upp í fjallaskálann í Árbúðum í 470 metra hæð.

28,5 km
Árnessýsla

Skálar:
Fremstaver : N64 27.023 W19 56.417.
Hvítárbrú: N64 32.343 W19 47.137. Hesthús.
Hvítárnes: N64 36.999 W19 45.377.
Árbúðir: N64 36.553 W19 42.235.

Nálægir ferlar: Fremstaver, Þjófadalir.
Nálægar leiðir: Farið, Bláfellsháls, Grjótártunga, Kjalvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson