Sukksöm fjárlög.

Greinar

Ekki er von, að Alþingi hafi efni á að verja fé til byggingar leikskóla, þegar það telur sig þurfa að hækka blaðastyrki á næsta ári um 85%. Það er meira en tvöföld meðaltalshækkun annarra liða á fjárlögum þess árs.

Þær þrettán milljónir króna, sem verja á til stuðnings pólitískum sorpritum, er almenningur vill ekki kaupa, renna auðvitað ekki til annarra þarfa, þar á meðal leikskóla. Alþingi hefur ákveðið sitt verðmætamat.

Ekki er von, að Alþingi hafi efni á að verja fé til margvíslegra framfaramála, þegar það telur sig þurfa að verja 280 milljónum króna í útflutningsuppbætur, svo að unnt sé að gefa útlendingum íslenzkt kjöt á flutningskostnaðarverði.

Verðmætamat Alþingis felst meðal annars í að hækka á síðustu stund framlög til jarðræktar, svo að neytendur og skattgreiðendur megi í framtíðinni þola byrðar af enn aukinni offramleiðslu á rándýrum landbúnaðarafurðum.

Ekki er von, að Alþingi hafi efni á að blása lífi í framtíðaratvinnu þjóðarinnar í iðnaði og tækni, þegar það telur sig þurfa að verja 8,4% alls fjárlagadæmisins til að halda uppi dulbúnu atvinnuleysi í hinum hefðbundnu búgreinum.

Aðeins í beinum styrkjum, uppbótum og niðurgreiðslum á hvatning Alþingis til aukinnar offramleiðslu á kjöti og mjólkurvörum að nema 1.500 milljónum króna á næsta ári. Þessi hálfi annar milljarður felur í sér einkennilegt verðmætamat.

Ekki er von, að Alþingi hafi efni á að nota fjölskyldubætur til að leysa hnútinn á vinnumarkaðnum, þar sem finna þarf leiðir til að bæta kjör hinna verst settu, en finnast ekki, af því að samtök launafólks gæta hinna betur settu.

Margsinnis hefur verið bent á, að lykillinn að félagslegum sáttum í þjóðfélaginu að þessu sinni sé fólginn í að breyta niðurgreiðslum í fjölskyldubætur, sem koma hinum lakast settu mun betur að gagni en niðurgreiðslurnar.

Þessi fáu dæmi sýna, að það er út í hött, þegar þingmenn éta hver upp eftir öðrum, að fjárlögin nýju fyrir næsta ár séu fjárlög aðhalds og sparnaðar. Í rauninni eru þau eins og fyrri slík. Þau eru fjárlög sukks og svínarís.

Í rauninni mætti breyta nafni fjárlaganna í fjár- og nautgripalög, því að sauðfé og nautgripir eru ær og kýr þeirra. Fyrirferðin á þessum húsdýrum í fjárlögum íslenzka ríkisins er fyrir löngu komin út fyrir allan þjófabálk.

Afleiðingin af sukki fjárlaga ársins 1984 verður hin sama og við höfum áður orðið að þola. Ríkið verður að prenta verðlausa peningaseðla og taka lán í útlöndum til að borga fyrir óráðsíu, sem þjóðin hefur alls engin efni á.

Alþingi og ríkisstjórn loka augunum fyrir því, að prentun verðlausra seðla og lán í útlöndum auka verðbólguna. Eftir afgreiðslu fjárlaga má búast við, að hjöðnun verðbólgunnar stöðvist á ofanverðum vetri og nýtt ris taki við.

Þegar eru komin í ljós merki þess, að hvatning síðustu gengislækkunar á innlenda framleiðslu sé að fjara út. Skaðlegt er að bíða of lengi með lagfæringu í formi nýrrar gengislækkunar, sem auðvitað styður verðbólguna.

Ofan á allt sukkið í nýju fjárlögunum er haldið utan þeirra greiðslum á borð við vexti af 1200 milljón króna skuld ríkisins við Seðlabankann og svo gæluverkefnunum, sem sett verða í lánsfjárlög eftir áramótin í samræmi við brenglað verðmætamat Alþingis.

Jónas Kristjánsson.

DV