Engar bætur fyrir fyrningu

Punktar

Ríkisstjórnin hefur lofað að bæta kröfuhöfum bankanna skaða vegna aðgerða stjórnvalda. Loforðið er sagt standa í vegi þess, að stjórnin efni loforð sitt úr stjórnarsáttamálanum. Ég sé hins vegar ekki, að ríkissjóður beri neina ábyrgð á ólöglegum gerðum bankanna. Þeir tóku veð hjá kvótagreifum í auðlind, sem þeir eiga ekki. Auðlindir hafsins eru eign þjóðarinnar samkvæmt lögum. Hafi bankarnir tekið veð í þessari auðlind fyrir óráðsíu kvótagreifa, er það lögbrot, sem ríkissjóður má ekki styðja. Þess vegna getur ríkið fyrnt kvótann eins og lofað var. Dómstólar verða svo að ákveða, hvort lög standi.