Enn er verið að smíða fjárlagafrumvarp og enn er það unnið í anda lögmáls Parkinsons. Stjórnendur opinberra stofnana hafa skilað skýrslum um áætlaða fjárþörf þessara stofnana á næsta ári. Í þessum áætlunum er mikið um dýrðir.
Alls staðar þarf fleiri starfsmenn til að búa til verkefni fyrir þá, sem fyrir eru. Alls staðar er nóg af verkefnum, sem gaman væri að vinna að. Og alltaf hefur alþingi samþykkt lög, sem leiða til nýrra útgjalda á fjárlögum.
Ofan á allt þetta bætist svo vissa stjórnenda opinberra stofnana, að áætlanir þeirra verði skornar niður um 10-20%. Þeir gera ráð fyrir niðurskurðinum með því að ofáætla fjárþörf sína, sem þessu nemur.
Niðurstaðan verður því samansöfnuð óskhyggja stjórnenda opinberra stofnana og alþingismanna. Þessi samansafnaða óskhyggja er kölluð fjárlagafrumvarp. Þetta frumvarp er ár eftir ár langt umfram greiðslugetu þjóðarinnar.
Til þess að minna beri á þessu tíðkast í vaxandi mæli, að fjárfestingarþættir séu teknir úr hinu venjulega fjárlagafrumvarpi. Þeir eru settir í annað fjárlagafrumvarp, sem kallað er lánsfjáráætlun, í sjónhverfingaskyni.
Afleiðingarnar eru margþættar. 15% útflutningstekna þjóðarinnar fara í afborganir og vexti af löngum, erlendum lánum. Þetta hlutfall var 13% í fyrra. Jafnframt þyngist skattbyrðin. Á þessu ári hækka beinir skattar um 5%.
Alvarlegast er þó, að útþensla hins opinbera kemur niður á hinum tveimur aðilum þjóðarbúsins, atvinnuvegum og almenningi. Þeir berjast í vinnudeilum um, hvernig skipta skuli köku, sem ríkið lætur minnka ár eftir ár.
Margoft er búið að benda á, að fjárlög má ekki byggja á samansafnaðri óskhyggju. Þau á að smíða á þveröfugan hátt, með því að byrja á niðurstöðutölunum og enda á einstökum greiðsluliðum. Alveg eins og launamaðurinn byggir á launaumslaginu.
Fyrst þarf að taka pólitíska ákvörðun um, hve mikill eigi að vera hlutur ríkisins af þjóðartekjunum, til dæmis 10%. Síðan þarf að ákveða, hve mikið eigi að fara til rekstrar og hve mikið til fjárfestingar, til dæmis 6% og 4%.
Næst þarf að skipta þessum upphæðum milli ráðuneyta. Það þarf ekki endilega að gerast í sömu hlutföllum og árið áður, heldur breyttum. Væri þá tekið tillit til pólitískra forgangsatriða á borð við orkubúskap þjóðarinnar.
Einnig þurfa ráðamenn að fá tækifæri til að íhuga, hvort nokkur heil brú sé í að verja 10% fjárlaga til styrkja, uppbóta og niðurgreiðslna í landbúnaði og auka þannig enn framtíðarkostnaðinn af þessu þjóðarmeini.
Þegar loksins er búið að brjóta fjárlagafrumvarpið niður í smæstu einingar, sjá menn til dæmis, hve mikið fé þjóðin getur lagt í heimavistarskóla á næsta ári. Þá væru hálftómir Hafralækjarskóli og Stóru-Tjarnaskóli ekki byggðir í senn.
Við slíkar aðstæður mundu embættismenn og stjórnmálamenn vanda sig mun betur og gera meira að því að velja og hafna. Þeir gætu jafnvel látið sér detta í hug, að leggja megi niður óþarfar stofnanir til að ná fé til þarfari hluta.
Fjárlagafrumvarp á að byggjast á þrennu. Í fyrsta lagi fastri hlutdeild ríkisbús í þjóðarbúi. Í öðru lagi vinnslu frá niðurstöðutölu í átt til einstakra útgjaldaliða. Í þriðja lagi, að greiðslur verði ekki að hefð, heldur séu endurmetnar á gagnrýninn hátt á hverju ári.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
