Ríkisstjórnin er nokkurn veginn búin að sigra í fyrri hálfleik kjarasamninganna og stendur vel að vígi við upphaf hins síðari. Eftir friðinn hjá opinberum starfsmönnum verður erfitt að magna ófrið á almennum vinnumarkaði.
Kjarasamningar hafa oftast öðrum þræði verið flokks- og stjórnarpólitísk mál. Að þessu sinni er það meira áberandi en oftast áður. Leiðtogum samtaka vinnumarkaðsins eru stjórnmálin ofar í huga en sjálf samningamálin.
Mikill meirihluti leiðtoga alþýðusambandsins og bandalags opinberra starfsmanna er hlynntur frekara samstarfi ríkisstjórnarinnar. Hið sama er að segja um forustu vinnumálasambandsins. Þessir aðilar stefna eindregið að friði.
Á móti stendur meirihluti leiðtoga vinnuveitendasambandsins, sem vill ríkisstjórnina feiga. Þetta eru stuðningsmenn þess hluta Sjálfstæðisflokksins, sem er í stjórnarandstöðu. Þeir vilja gjarna lenda í slagsmálum.
Í öllu þessu er ljósast, hversu hallir undir ríkisstjórnina leiðtogar launþega eru. Nú er ekki minnzt á “Samningana í gildi”, aðalmálið fyrir tveimur árum. Þá var líka Geir Hallgrímsson við völd, en ekki Gunnar Thoroddsen.
Í þetta sinn voru leiðtogar launþega sanngjarnir og hófsamir í kröfum, að minnsta kosti í samanburði við ýmsa fyrri tíð. Þeir töluðu um nokkur prósent í stað nokkurra tuga prósenta og þæfðu málin af skynsemi.
Fyrsta bragð stjórnarsinna var óvænt útspil vinnumálasambandsins, sem stjórnarandstæðingar mættu með krók málmsmíðasambandsins. Þá sneru stjórnarsinnar yfir á hinn vænginn og náðu samkomulagi í opinbera geiranum.
Samkomulagið felur í sér 14.000 króna hækkun til hins launaminni meirihluta ríkisstarfsmanna. Ennfremur flokkatilfærslur 1000-2000 starfsmanna, hátekjusamræmingu 200-300 manna og 345 þúsund króna gólf nokkur hundruð lágtekjumanna.
Gólfið er eins konar lágmarkslaun. Það er í samræmi við vilja meirihluta leiðtoga alþýðusambandsins. Um leið er það meirihluta leiðtoga vinnuveitendasambandsins mjög andstætt. Gæti hér verið stríðni í bland?
Ekki ætti að vera erfitt að túlka samkomulagið í opinbera geiranum yfir í geira atvinnulífsins. Einstakir liðir vega að vísu misjafnlega þungt. En samt ætti að vera hægt að finna sambærilega útgjaldaaukningu atvinnulífs megin.
Fróðlegt hefur verið að fylgjast með baráttu Morgunblaðsins og Vísis gegn samkomulagi hjá hinum opinberu. Blöðin hafa útmálað fyrir ríkisstarfsmönnum, hversu óhagstætt fyrir þá samkomulagið sé. En án árangurs.
Þar með hefur stjórnarandstaðan hingað til sótt að ríkisstjórninni úr tveimur áttum. Annars vegar hafa opinberu samningarnir verið sagðir allt of lágir. Og hins vegar segir vinnuveitendasambandið þá allt of háa.
Með friði í opinbera geiranum má búast við betra samræmi í stjórnarandstöðunni. Blöð hennar munu nú snúast á sveif vinnuveitenda og segja atvinnulífið ekki þola samninga, sem séu jafnháir og hjá hinu opinbera.
Þessi stjórnarandstaða verður ákaflega vandspiluð. Almennt er talið, að opinberu samningarnir hafi verið hæfilegir, miðað við aðstæður, og að rétt sé að semja um eitthvað svipað í atvinnulífinu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
