Ætla mætti, að sjálfsöryggi og jafnvel skortur á sjálfsgagnrýni sé gott vegarnesti út í lífið. Ég hef oft furðað mig á, hvað menn komast langt á sjálfstraustinu einu. Að minnsta kosti hér á landi. Því varð ég hissa, þegar ég las í New York Times, að forstjórar stórfyrirtækja eru ekki ráðnir út á sjálfstraust. Þar er fjallað um bókina Hornskrifstofan eftir Adam Bryant. Þar eru gefin upp fimm einkenni hins fullkomna forstjóra. Eindregin forvitni er þar efst á blaði. Forvitni um hugsanir annarra, aðrar leiðir, efasemdir, viljinn til að læra nýtt. Hafa ekki svörin, heldur fremur spurningarnar.
