Ríkisstjórnin er skipuð fjörgömlum pólitíkusum, sem eiga erfitt með að venja sig á nýja siði. Spilling gamalla tíma gengur ljósum logum, samanber gjöf fjármálaráðherra til meðferðarheimilisins Árbótar. Í gær kom fram, að óspart hafa verið ráðin pólitísk kvígildi í ráðuneytin án auglýsinga. Til að komast framhjá nýjum reglum eru störfin kölluð tímabundin. Þetta eru hallærisleg undanbrögð, sem stinka langar leiðir. Af hverju geta flokkarnir ekki ýtt burt gamlingjunum, sem eru gegnsósa af spillingu fyrri áratuga? Með sama framhaldi verða stjórnarflokkarnir orðnir fylgislausir í næstu kosningum.
