Raunveruleikinn var rothögg

Punktar

Dekurkynslóðin verður gjaldþrota. Hún neitar að borga, bíður eftir Godot, sem aldrei kemur. Trúir plötuslögurum og seljendum snákaolíu. Skildi aldrei samhengið milli eyðslu og fjárhags síns. Telur hús og bíl og innbú til mannréttinda, jafnvel þótt allt sé það í tómri skuld. Hugarfarið kom með plastkortunum. Áður safnaði fólk peningum. Einhverjir ólu upp þessa kynslóð í linnulausri hjartahlýju. Sagði dekurbörnunum, að allt, sem þau gerðu, væri svo frábært. Þau ættu réttindi, en minna var talað um skyldur. Veruleikinn kom í hruninu eins og verulega ósanngjarnt rothögg. Kallað forsendubrestur.