Það væri kraftaverk, ef ríkisstjórninni tækist ekki að ná síðbúnu samkomulagi um efnahagslög á næstu vikum. Núverandi ágreiningur stjórnarflokkanna er hreinn barnaleikur í samanburði við annan ágreining, sem ríkisstjórnin hefur komizt yfir á hálfs árs ferli sínum.
Þessi ríkisstjórn, sem var svo sjálfsögð og eðlileg niðurstaða kosninganna, hefur verið á hvolfi frá upphafi. Það er hennar náttúrlega ástand. Hún hangir saman á ósamlyndinu og hefur alltaf gert. Hún mundi hanga saman, þótt ráðherrarnir mættu vopnaðir til funda.
Þema ríkisstjórnarinnar er hin stöðuga orrahríð Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins annars vegar og hins vegar tilraunir Framsóknarflokksins til að bera klæði á vopnin. Framsóknarflokkurinn er kjölfestan og hallar sér á víxl að hinum óstýrilátu samstarfsflokkum.
Þemað kom i ljós, áður en stjórnin var mynduð. Fyrst mistókst Benedikt Gröndal og Lúðvík Jósepssyni hvorum á fætur öðrnm að mynda hana. Síðan hnýtti Ólafur Jóhannesson hana saman með aðstoð landstjóra Verkamannasambandsins, Guðmundar J. Guðmundssonar og Karls Steinars Guðnasonar stórvezírs.
Sömu nóturnar eru endurteknar hvað eftir annað í hljómkviðu ríkisstjórnarinnar. Á örlagastundu hefur Alþýðubandalagið tilhneigingu til að stíga skref aftur á bak. Bandalagið gerði það, þegar Benedikt var næstum búinn að mynda stjórn. Og það gerðist aftur, þegar Ólafur var búinn að koma saman efnahagsfrumvarpinu, sem nú liggur fyrir þingi.
Stærstu þingmál ríkisstjórnarinnar hafa byggzt á misskilningi ráðherra. Tómas Árnason hélt á sínum tíma, að hann væri búinn að ná stjórnarsamkomulagi um fjárlagafrumvarp. Ólafur hélt svo um daginn, að hann væri búinn að ná slíku samkomulagi um efnahagsfrumvarpið. Hvort tveggja var misskilningur og bæði frumvörpin litu dagsins ljós sem einkafrumvörp viðkomandi ráðherra.
Sérgrein forsætisráðherra í hljómkviðunni eru kúvendingarnar. Í efnahagsfrumvarpi nóvembermánaðar kúventi hann skyndilega frá 3,6% kauphækkun Alþýðuflokks og Framsóknarflokks yfir í 6,1% kauphækkun Alþýðubandalags. Í efnahagsfrumvarpi marzmámaðar kúventi hann enn frá Alþýðuflokki yfir til A1þýðubandalags og síðan til baka aftur.
Ætíð hefur ríkisstjórnin velt vanda eins máls yfir á næsta mál. Hún náði samkomulagi um fæðingu sína á þann hátt, að Alþýðubandalagið fórnaði varnarmálunum og Alþýðuflokkurinn siðgæðismálunum. Hún náði raunar samkomulagi um óbreytta stefnu fráfarandi ríkisstjórnar.
Í efnahagsfrumvarpi hinu fyrra, sem sumir kalla kaupránsfrumvarp hið fyrra, var vandanum velt yfir á fjárlagafrumvarpið. Í fjárlagafrumvarpinu var vandanum velt yfir á efnahagsfrumvarp eða kaupránsfrumvarp hið síðara. Síðasti vandinn verður svo væntanlega leystur með því að velta honum yfir á sérstakt frumvarp um “félagslegar umbætur”.
Þar eru enn komnir til skjalanna guðfeður ríkisstjórnarinnar, landstjórinn og stórvezír hans. Þeir eru um þessar mundir að reyna að bjarga ríkisstjórninni með hugmyndum um nýtt hliðarhopp yfir í “félagslegar umbætur”. Líklegt er, að Guðmundi J. og Karli Steinari takist þetta.
Þannig endurtekur sagan sig á ýmsan hátt á stormasömum ferli ríkisstjórnarinnar. Þemað hefur sinn gang í nýjum og nýjum myndum. Því meira sem hlutirnir breyrast, þeim mun meira eru þeir eins. Þess vegna mun ríkisstjórnin hanga saman enn um sinn.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
