Dagblaðið er næststærst

Greinar

Óhlutdræg könnun Hagvangs hf. á útbreiðslu dagblaða og tímarita, sem fyrirtækið gerði á vegum auglýsingastofanna, hefur leitt í ljós, að af dagblöðunum er Morgunblaðið mest lesið og Dagblaðið næstmest.

Samkvæmt könnuninni lesa 68% þjóðarinnar Morgunblaðið. 56% lesa Dagblaðið og 45% Vísi. Dagblaðið er þannig mitt á milli Morgunblaðsins og Vísis. Ætti því ekki lengur að vera neinum blöðum um það að fletta, hvaða síðdegisblað er mest lesið.

Athyglisvert er, að eitt tímarit kemst í lestri upp fyrir önnur dagblöð en þau. sem talin eru hér að framan. 39% þjóðarinnar lesa Vikuna. 35% lesa Tímann. 23% lesa Þjóðviljann og 8% lesa Alþýðublaðið.

Undanfarin misseri hefur stundum verið deilt um útbreiðslu blaðanna, bæði hvað varðar lestur og sölu. Verzlunarráð Íslands reyndi að koma á samstarfi auglýsingastofa og dagblaða um öflun raunhæfra talna, er gætu bundið enda á þessar deilur.

Þessar tilraunir fóru út um þúfur, af því að einungis Morgunblaðið og Dagblaðið skrifuðu undir samning um upplags-, sölu- og lestrarkannanir. Nú hafa auglýsingastofurnar sjálfar tekið af skarið með því að fá Hagvang hf. til að rannsaka málið.

Tölur Hagvangs hf. staðfesta það, sem Dagblaðið hefur haldið fram, það er að Dagblaðið er mest lesna og mest keypta síðdegisblaðið og næstmest lesna og næstmest keypta dagblaðið í landinu.

Hér að framan hafa verið birtar tölur um lestur dagblaðanna. Um söluna eru líka tölur í skýrslu Hagvangs hf. 11% þjóðarinnar kaupa Morgunblaðið í lausasölu, 59% í áskrift og samtals 70% þjóðarinnar.

Dagblaðið kaupa 23% þjóðarinnar í lausasölu, 30% í áskrift og samtals 53% þjóðarinnar. Vísi kaupa 19% þjóðarinnar í lausasölu, 19% í áskrift og samtals 38% þjóðarinnar.

Tímann kaupa 4% þjóðarinnar í lausasölu, 22% í áskrift og samtalSs 26% þjóðarinnar. Þjóðviljann kaupa 2% þjóðarinnar í lausasölu, 14% í áSskrift og samtalS 16% þjóðarinnar. Alþýðublaðið kaupir loks 1% þjóðarinnar í lausasölu, 3% í áskríft og samtals 4% þjóðarinnar.

Dagblaðið kom líka vel út úr einstökum liðum könnunarinnar. Sem dæmi má nefna, að í sjávarútvegi lesa 64% Dagblaðið og 56% Morgunblaðið. Í kaupstöðum landsins lesa 55% Dagblaðið og 56% Morgunblaðið.

Áfram má rekja tölur Hagvangs hf. Á Austurlandi lesa 44% Dagblaðið og 45% Morgunblaðið. Í Reykjaneskjördæmi lesa 69% Dagblaðið og 70% Morgunblaðið. Af 20-29 ára Íslendingum lesa 60% Dagblaðið og 63% Morgunblaðið.

Dagblaðið hefur samkvæmt könnuninni tiltölulega jafna dreifingu um land allt. Á höfuðborgarsvæðinu lesa 64% manna Dagblaðið, 69% í Reykjaneskjördæmi og 41-45% í öðrum kjördæmum, hvergi minna en 41%.

Helzt er það í aldursflokkunum, þar sem dreifing Dagblaðsins er misjöfn. Af 16-19 ára Íslendingum lesa 61% Dagblaðið. af 20-29 ára 60%, af 30-39 ára 54%, af 40-59 ára 54% og af 60 ára og eldri 42%.

Þessar tölur sýna. að Dagblaðið er einkum blað unga fólksins og þeirra, sem eru á bezta aldri. Dagblaðið er semsagt á framtíðar vegi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið