Almenningur lætur fremur vel af ríkisstjórninni. Skammir, gagnrýni og viðvaranir stjórnarandstæðinga og óháðra hafa lítinn hljómgrunn um þessar mundir.
Fólk trúir ekki Morgunblaðinu, sem segir lífskjör margra hafa versnað og hverja höndina vera uppi á móti annarri í herbúðum stjórnarsinna. Fólk trúir tæpast hinum, sem flytja sanngjarnari gagnrýni.
Almenningi finnst lífskjör sín hafa batnað. Menn telja, að dregið hafi verið úr svonefndu “kaupráni”, og verðlækkun neyzluvara hefur ekki farið fram hjá neinum.
Hér á landi er afar sjaldgæft, að vörur lækki í verði. Menn kunna vel að meta sjaldgæfa atburði. Þess nýtur ríkisstjórnin núna. Mönnum finnst hún hafa reynt eitthvað nýtt og efnilegt.
Ríkisstjórnin þarf á þessu andrúmslofti að halda. Það skapar henni vinnufrið til raunhæfra aðgerða, ef hún skyldi þora. Vonandi safnar hún kjarki, þótt þess sjáist enn ekki merki.
Ríkisstjórnin hefur tekið nokkra slagi í upphafi spils. En hún hefur líka kastað flestum trompunum til þess að ná slögunum. Hún hefur því lítið svigrúm til frekari sjónhverfinga á næstu mánuðum.
Enn sem komið er hafa hærri skattar lítil áhrif á viðhorf fólks. Þeir eru bara tölur á blaði. Í næsta mánuði byrja menn hins vegar að borga. Þá er hætt við, að margir vakni upp með andfælum.
Þá kemur í ljós, að það eru ekki tómir stórlaxar, sem fá á baukinn. Það er einkum launafólk, að vísu hálauna- og miðlungsfólk, en launafólk samt.
Margir hinna auðugu sleppa hins vegar, af því að tekjur þeirra eru þess eðlis, að þær mælast illa á skattskýrslum. Í næsta mánuði munu opnast augu margra fyrir þessari dapurlegu staðreynd.
Margir eru þegar farnir að átta sig á, að það var peningafólkið, sem græddi mest á tímabili hins lága kjötverðs. Það var fólkið með handbært fé og handbærar frystikistur. Láglaunafólkið hafði hins vegar ekki ráð á að græða.
Eitt af náttúrulögmálum efnahagsmála er, að hvers konar krukk stjórnvalda í verðlagi og krónutölum gerir hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari. Menn vissu, að þetta gilti um gengislækkanir, en áttuðu sig ekki á, að verðlækkanir lúta sama lögmáli.
Ríkisstjórnin kann að auka vinsældir sínar við lækkun vaxtaafurðalána. Hvers kyns lækkanir eru jafnan vinsælar.
Við megum samt ekki gleyma því, að í verðbólgunni eru allir vextir á Íslandi neikvæðir. Lækkun þeirra eykur misræmið milli aðgangs að lánsfé og skorts á aðgangi að lánsfé.
Vaxtalækkun er dæmigert krukk stjórnvalda, ættað úr sjónhverfingasmiðju Lúðvíks Jósepssonar, og gerir hina ríku ríkari, hina fátæku fátækari.
Þverbrestirnir í ríkisstjórninni munu koma betur í ljós um miðjan næsta mánuð, þegar alþingi hefur tekið til starfa. Við erum núna í logninu fyrir storminn.
Vinsældir ríkisstjórnarinnar byggjast á sjónhverfingum, sem endast henni ekki fram eftir vetri. Hún ætti því að hlusta á þá stjórnarþingmenn, sem munu á þingi reyna að beina henni inn á betri brautir.
Ríkisstjórnin má ekki láta eins og hver dagur sé hennar síðasti. Fremur ætti hún að spá í stöðu sína að loknu fjögurra ára kjörtímabili.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
