Í Danmörku og Noregi eru til svonefndir Vinstri flokkar, sem fyrir löngu eru orðnir hægri flokkar, af því að þungamiðjan í stjórnmálunum hefur færzt til vinstri, síðan þessir flokkar urðu til.
Þetta skóladæmi um úreldingu hugtaka er ekki fjarri íslenzkum aðstæðum. Sú áttavilla er nefnilega komin upp í stjórnmálum landsins, að vinstri flokkar sýna stundum einkenni hægri flokka og hægri flokkar sýna einkenni vinstri flokka.
Að vísu er áttleysan eitt megineinkenni íslenzkra stjórnmála. Mismunur á stefnuskrám flokkanna er nánast marklaus, því að flokkarnir haga gerðum sínum nokkurn veginn eins, þegar þeir standa að ríkisstjórn.
Þegar svo í ljós kemur áþreifanlegur mismunur á gerðum flokkanna, er hann gjarna í þversögn við hefðbundna áttavita. Hægri flokkar framkvæma vinstri stefnu og vinstri flokkar framkvæma hægri stefnu.
Stjórnarflokkarnir tveir eru taldir mið- og hægriflokkar. Þetta eru stærstu flokkarnir og hafa lengst af stjórnað landinu, saman eða hvor í sínu lagi. Þeir hafa komið sér vel fyrir í hinu opinbera kerfi.
Þessir flokkar eru síður en svo reknir af athafnamönnum eða markaðsbúskaparsinnum. Þeim er stjórnað af beinum og óbeinum embættismönnum kerfisins, mönnum sem lifa á ríkislaunum eða ríkisbitlingum.
Þingmenn stjórnarflokkanna. setja lög, sem draga úr athafnafrelsi og öðru einstaklingsfrelsi og efla miðstjórnarvald hins opinbera. Ríkisstjórn þessara flokka eykur hlutdeild ríkisbáknsins í þjóðarbúinu á kostnað hluta almennings og atvinnulífs.
Í reynd eru stjórnarflokkarnir flokkar embættishagsmuna og ríkisdýrkunar, þótt annað megi lesa í marklausum stefnuskrám.
Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír eru taldir vinstri flokkar. Þetta eru flokkar, sem reyna að sækja styrk sinn til samtaka launþega, og þau samtök hafa á undanförnum árum sveigt frá hefðbundinni stefnu.
Með vaxandi velmegun í landinu hefur minnkað áhugi forustumanna launþegasamtaka á aukningu félagslegrar velferðar og félagslegrar þjónustu. Margir þeirra telja þessi atriði hafa batnað svo á undanförnum áratugum, að nú sé unnt að leggja höfuðáherzluna á kaupmáttinn.
Í reynd hafa launþegasamtökin á síðustu árum sýnt meiri áhuga á beinum kauphækkunum en á ýmsum hliðaratriðum, sem koma fram í samneyzlu fremur en einkaneyzlu.
Forustumenn launþegasamtaka hafa tekið eftir, að í stórum dráttum eru geirar þjóðarkökunnar þrír. Einn fer til fjárfestingar og samneyzlu hjá hinu opinbera. Annar fer til fjárfestingar atvinnuvega og hinn þriðji til íbúðakaupa og einkaneyzlu almennings.
Þessir forustumenn vita, að aukin samneyzla getur dregið úr einkaneyzlu umbjóðenda þeirra. Þeir eru því smám saman að snúast á sveif gegn útþenslu hins opinbera kerfis. Þetta viðhorf endurspeglast síðan í gerðum stjórnmálamanna hinna svonefndu vinstri flokka.
Og áttavillan virðist varanleg á báða bóga stjórnmálanna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
