Salernishátíð stjórnenda Listahátíðar hefur sætt harðri gagnrýni almennings. Sem dæmi um það má hafa hinn mikla fjölda lesendabréfa, sem hrannazt hefur upp á skrifstofum Dagblaðsins. Eru þau öll afar andvíg kvikmyndavali þessarar hátíðar.
Ekki er laust við, að ástæða sé til að gruna stjórnendur hátíðarinnar um að vera af ásettu ráði að reyna að ganga fram af fólki. Sennilega hafa þeir gaman af þeim hvelli, sem hátíðin hefur valdið. Kannski er það sjónarmið jafnt þarft og önnur, sem til greina gætu komið.
Hitt er svo annað mál, að kvikmynd verður ekki varin með því, að hún hafi fengið verðlaun hjá erlendum sálufélögum kvikmyndahátíðarmanna. Það hefur ekkert almennt gildi, þótt sérvitringar verðlauni sérvitringa. Á Íslandi þurfa menn ekkert mark að taka á slíku.
Í rauninni máttu menn fyrirfram vita, á hverju þeir áttu von. Menn gátu látið hjá líða að horfa á þær hátíðarkvikmyndir, sem salernislegastar voru taldar. Að öðrum kosti gátu þeir gengið út, þegar þeim varð þessi staðreynd ljós. Hvort tveggja hafa menn líka óspart gert.
Hins vegar er ótrúlegt, að fólk verði verra af því að horfa á óra erlendra vitfirringa í kvikmyndaiðnaðinum. Engar gildar rannsóknir benda til þess, að svo sé. Fremur eru líkur á, að fólk losni við óra, ef einhverjir eru.
Eðlilegt er, að kvikmyndaval stjórnenda hátíðarinnar sé harðlega gagnrýnt af almenningi. Raunar hefur það líka verið gagnrýnt af sérfræðingum þeim, sem skrifað hafa um kvikmyndirnar í blöð. Hér á landi eru þeir áreiðanlega mjög fáir, sem hafa gaman af salerniskvikmyndum.
Á hinn veginn ætti að vera alveg óþarfi af kvikmyndaeftirliti og saksóknara að setja sig í þær stellingar, að salernishátíðarmenn telji sig neydda til að hætta sýningum á einni eða fleirum þessara kvikmynda.
Það er einkennileg og nánast sjúkleg árátta embættismanna að vera sí og æ að reyna að hafa vit fyrir fullorðnu fólki. Auðvitað er fólk fullfært sjálft um að meta, hvaða kvikmyndir það má sjá. Boð og bönn á því sviði hafa að minnsta kosti ekki þau áhrif, sem að er stefnt.
Embættismenn geta ekki skipulagt siði þjóðarinnar, þótt þeir haldi það. Siðirnir liggja í andrúmslofti þjóðlífsins, síbreytilegir eftir aðstæðum hverju sinni. Það er fólkið sjálft, sem ákveður, hvort bíómynd sé utan almennra siða eða ekki.
Jafnvond og hugsun embættismanna er svo hugsun stjórnenda hátíðarinnar. Smekkur þeirra virðist einkar einhæfur á sviði salernismála, ef til vill að erlendri fyrirmynd.
Gróf mistök á þessu sviði geta haft alvarleg áhrif til frambúðar, sérstaklega ef framtíð Listahátíðar er stefnt í hættu, bara af því að nokkra menn langar til að ganga fram af fólki.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
