8. Segovia

Borgarrölt
Acueducto romano, Segovia

Acueducto romano, Segovia

Segovia

Segovia er 50 þúsund manna bær í 1000 metra hæð og rís eins og skip upp af hásléttunni. Staðurinn er einkum frægur fyrir rómverska vatnsriðið, sem er nítján alda gamalt, og borgarkastalann, sem stendur fegurst kastala.

Acueducto romano

Hið mikla vatnsrið Rómverja, Acueducto romano, frá því um 100 eftir Krist, blasir við ferðamönnum, sem koma að miðbænum í Segovia. Það er eitt af bezt varðveittu minjum frá tímum keisaranna Vespaníusar og Trajanusar.

Það flytur enn vatn til borgarinnar á 167 steinbogum, er 728 metra langt og 28 metra hátt við torgið, þar sem gatan liggur undir það. Það er reist úr höggnum granítsteinum án nokkurs bindiefnis. Rétt austan við vatnsriðið er matsölustaðurinn Mesón de Cándido.

Alcázar

Ef vatnsriðið er sagt vera við skut skipsins, er borgarkastalinn, Alcázar, í stafni. Milli þeirra er um eins kílómetra ganga um gamla bæinn. Þar verður á vegi okkar gotnesk dómkirkja frá 16. öld, grönn og glæsileg, með gullnum bjarma í sólskini. Á svipuðum slóðum er hótelið Los Linajes, ásamt mörgum skemmtilegum húsum og göngusundum.

Borgarkastalinn er frá miðri 14. öld og gnæfir yfir dalnum. Hann var um tíma íbúðarhöll Ísabellu drottningar. Nú er hann vopnasafn. Fáir kastalar á Spáni eru jafn veglegir í landslaginu og kastalinn í Segovia. Hann er opinn 10-18:30, -15:30 á veturna.

Skemmtilegt er að aka umhverfis gamla bæinn í Segovia og virða fyrir sér bæjarstæðið, einkum kastalann, sem tekur sig vel út frá brúnni yfir ána Eresma og frá Vera Cruz kapellunni handan árinnar.

Næstu skref
Alcázar, Segovia

Alcázar, Segovia