Sandgræðslan er langsamlega veigamesti þáttur landgræðsluáætlunarinnar, sem Alþingi samþykkti á Lögbergi á sunnudaginn. 705 af1000 milljón krónum áætlunarinnar renna í hlut sandgræðslunnar, sem er á vegum Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti.
Þetta fjármagn verður notað á næstu fimm árum og fer mestur hlutinn í sáningu og áburðardreifingu eða 515 milljónir króna. 65 milljónir króna fara í sandgræðslugirðingar, 40milljónir í sandgræðsluflugvelli og tæki og geymslur á þeim, 45 milljónir í sandgræðsluáveitur og 40 milljónir í ýmislegt annað, svo sem landjöfnun, tæki, fræöflun og gróðureftirlit.
Verkefnin, sem blasa við á þessu sviði, eru óþrjótandi. Höfuðáherzla verður lögð á að stöðva gróður- og jarðvegseyðingu í byggð, það er að segja á því landi, sem er neðan við 400 metra hæð yfir sjávarmál. Á þessu svæði er nú eyðingin örust. En þetta er um leið það land, sem hagkvæmast er til ræktunar.
Aðgerðirnar miða fyrst og fremst að því að sá í foksvæði, loka rofabörðum og styrkja mótstöðuafl gróðurs. Í þessu skyni þarf að reisa samtals um 300 kílómetra af girðingum, því að reynslan hefur sýnt, að landgræðslan ber sjaldnast árangur, nema foksvæðin séu girt og friðuð.
Á hálendinu er hefting jarðvegseyðingar örðugri og dýrari en á láglendi vegna lélegri gróðurskilyrða, snjóþyngsla, skorts á hæfum plöntum og mikils flutningskostnaðar. Víðast er hálendið þegar orðið örfoka. En þó á þar sér enn stað mikil gróðureyðing, sem ætlunin er að stöðva.
Ágætur árangur hefur náðst á undanförnum áratugum í heftingu sandfoks- Samt er sandfok enn víða til tjóns, bæði á láglendi og hálendi. Stöðvun þess er að því leyti frábrugðin stöðvun annarrar jarðvegseyðingar, að komast þarf fyrir upptök foksins.
Tilraunir með áveitur til að hækka grunnvatn, flýta fyrir uppgræðslu og stöðva jarðvegsfok lofa góðu um framtíðina. Vatnsskortur er víða aðalorsök gróðurleysis, enda er jarðvegur víða gleypur og heldur illa vatni. Er ráðgert að beita áveitum í vaxandi mæli á næstu árum.
Landgræðslan hefur nú til umráða tvær flugvélar til fræ- og áburðardreifingar, en getur ekki nýtt þær sem skyldi. Aðstöðu vantar á flugvöllum til geymslu og hleðslu á áburði og þar að auki vantar flugvelli við sum helztu dreifingarsvæðin. Úr þessu er ætlunin að bæta á áætlunartímabilinu.
Skortur á harðgerðum og hæfum plöntum til uppgræðslu hefur háð landgræðslustarfinu verulega. Mest af fræinu er fengið frá öðrum löndum: Melgrasið er undantekning frá þessu, enda hentar það vel íslenzkum skilyrðum. Mjög nauðsynlegt er að afla meira melfræs og leita jafnframt að hæfum plöntum erlendis, er geti aukið tegundafjölda íslenzku flórunnar.
Fyrir utan allt þetta er ráðgert, að Landgræðslan styðji gróðurvernd og uppgræðslu á vegum sveitarfélaga og einstaklinga, einkum þar sem þröng er í högum. Jafnframt á að koma upp sérstöku gróðureftirliti á vegum Landgræðslunnar.
Við vonum öll, að ákvörðun Alþingis um framkvæmd þessarar miklu landgræðsluáætlunar beri góðan árangur í miklu starfi á næstu árum, svo að þjóðin megi sem örast greiða ellefu alda skuld sína við landið.
Jónas Kristjánsson
Vísir