7. Írland – Belfast

Borgarrölt
City Hall, Belfast, Norður-Írland

City Hall, Belfast

Belfast

Aftur förum við inn á N1, yfir landamærin til Norður-Írlands, þar sem vegurinn heitir A1, alla leið inn í miðbæ í Belfast. Úr King Street ökum við inn í bílageymslu við Castlecourt verzlanakringluna. Þaðan er um 600 metra gangur, fyrst eftir King Street og síðan til vinstri eftir Wellington Place, að miðpunti borgarinnar, ráðhúsinu.

City Hall er mikilúðlegasta mannvirkið í Belfast, hvít höll, sem allar leiðir liggja að. Hún var reist 1898-1906 í nýgnæfum rjómatertustíl með mikilli koparhvelfingu yfir miðþaki. Ferðamenn mega skoða höllina.

Fyrir framan er Donegal Square, aðaltorg borgarinnar og strætisvagnamiðstöð hennar. Andspænis ráðhúsinu handan torgsins eru göngugötur.

Crown Liquor

Sömu leið förum við til baka. Ef við beygjum til vinstri í Fisherwick Street í stað þess að fara til hægri í King Street, komum við eftir 200 metra að þekktasta hóteli og frægustu krá borgarinnar við Great Victoria Street.

Crown Liquor, bar, Belfast

Crown Liquor

Hotel Europe hefur nýlega verið gert upp og er nú afar vel búið að öllu leyti. Andspænis hótelinu er Crown Liquor Saloon, ríkulega skreyttur að utan og innan. Kráin er í vel varðveittum viktoríustíl, með postulínsflísum að utan, steindum gluggum, gasljósum, lokuðum gestabásum við útvegg og útskornum viðarsúlum og viðarlofti. Þetta er sennilega merkasta mannvirki borgarinnar og sælustaður göngumóðra. Ef hann væri ekki, mundum við tæpast stanza lengi í Belfast.

Næstu skref