6. Villages – West Broadway

Borgarrölt

West Broadway

Úr Bleecker Street beygjum við til hægri suður La Guardia Place, yfir West Houston Street og áfram suður West Broadway. Á West Houston Street.

Wine Bar, New York

sem við könnumst við frá fjórðu ferð, gefum við okkur tíma til að fylgjast með gangstéttarverzluninni.

West Broadway er myndlistargata New York. Þar eru margir af þekktustu listsýningarsölum borgarinnar, svo sem Leo Castelli, Mary Boone og Dia Art. Við göngum suður að Broome Street, beygjum þar til vinstri og svo aftur til vinstri norður Wooster Street, alla leið aftur til West Houston Street. Þar beygjum við til vinstri og svo aftur til vinstri suður Greene Street, alla leið suður að Canal Street.

Á leiðinni lítum við inn í listsýningasali, sem eru þéttastir við West Broadway og Wooster Street. Við lítum líka inn í vínbarina Wine Bar og Soho Kitchen og bjórkrána Fanelli´s, frábæra áningarstaði á rólegu rölti okkar um listahverfið SoHo.

Greene Street

Í Greene Street, einkum syðst, sjáum við falleg dæmi um byggingarlist vöruhúsanna, sem einkenna þetta hverfi. Framhlið húsanna prýða gjarna tveggja hæða hásúlur. Þessar framhliðar eru yfirleitt úr steypujárni, sem hefur verið látið renna í mót eftir margvíslegu hugmyndaflugi, er fékk að leika lausbeizlað á síðari hluta nítjándu aldar. Þá var frelsi járnsteypunnar notað til að verksmiðjuframleiða stælingar alls kyns stíla fyrri tíma, einkum endurreisnar og nýgnæfu. Síðar hafa bætzt við brunastigar. 50 slík hús hafa verið varðveitt við Greene Street.

Í þessum húsum var áður fataiðnaður, annar léttaiðnaður og vörugeymslur, en nú búa þar vel stæðir listamenn og þeir, sem vilja búa í listamannahverfi.

Syðst í götunni Mercer Street, sem liggur samsíða Greene Street, er Museum of Holography, þar sem leikið er með leysigeislum á þrívídd á afar sannfærandi hátt. Þetta er sérstætt safn, en farið að gerast þreytulegt.

White Street

Úr suðurenda Greene Street beygjum við til hægri eftir Canal Street og síðan til vinstri suður West Broadway. Við yfirgefum listamannahverfið SoHo og förum gegnum listamannahverfið TriBeCa. Við tökum eftir, hvaða vöruhús eru orðin að vinnustofum, því þar hanga plöntur í gluggum.

Í þvergötunni White Street, sem liggur til vinstri frá West Broadway, sjáum við einna beztu dæmin um steypujárnshús hverfisins, sem eru hliðstæð slíkum húsum í SoHo.

Við endum þessa göngu í kvöldverði í veitingahúsinu Odeon við West Broadway. Þar má sjá margan furðufuglinn úr hópi þorpsbúa TriBeCa.

Næstu skref