6. Hverfin – Greenwich Village

Borgarrölt
Washington Square, Greenwich Village, New York 2

Washington Square, Greenwich Village

Greenwich Village

Washington Square, New York

Washington Square

Fyrir norðan SoHo, handan við Houston Street, tekur við Greenwich Village, gamalkunnugt háskóla- og menningarhverfi umhverfis Washington Square. Það nær frá Houston Street norður til 14th Street og frá Broadway vestur til Hudson River.

Greenwich Village er alveg sér á parti í borginni, hverfi gamalla og lágreistra íbúðarhúsa við undnar götur, sem erfitt er að rata um, rétt eins og í London. Hér er borgarháskólinn, miðstöð nýtízkulegrar leiklistar og jazzmiðja heimsins.

Greenwich Village er notalegasta hverfi borgarinnar. Bóhemar Bandaríkjanna byrjuðu að flytjast til hverfisins á fjórða áratug aldarinnar og í stríðum straumum eftir síðari heimsstyrjöldina, þegar Greenwich Village varð að eins konar Vinstri bakka Signu. Síðar komu hommarnir og bítlakynslóðin. Hommarnir halda sig vestast í hverfinu, vestan við 7th Avenue og niður að Hudson River.

Ræflarokkið fór til East Village og framúrstefnu-myndlistin til SoHo, svo að Greenwich Village hefur staðnað sem virðulegt hverfi miðaldra bítla  eða skallapoppara og þykir raunar mjög fínt nú til dags. Þorpsbúarnir eru félagslega meðvitaðir og standa vel saman, þegar á reynir.

Washington Square er sunnudagsstofa þorpsbúa, eins konar St Germain des Prés. Þar kaupa þeir fíkniefni, tefla skák, renna sér á hjólabrettum, hlusta á farand-tónlistarmenn og ræða um, hvernig verjast megi geðbiluðum skipulagsyfirvöldum, sem vilja láta rífa allt gamalt og gott.

East Village

East Village er við hlið Greenwich Village, handan við Broadway, stundum kallað NoHo eða North of Houston Street. Það nær frá Houston Street norður til 14th Street og frá Broadway til East River, gamalt hverfi landnema frá Úkraínu og Póllandi, sem nú er orðin miðstöð ræflarokks í Bandaríkjunum.

Síðan húsaleiga fór að hækka í TriBeCa hafa margir myndlistarmenn flúið til East Village, þar sem verðlag er lægra. En nú eru menn farnir að átta sig á, að hafa má peninga upp úr þessu fátæktarhverfi, svo að húsaleiga er byrjuð að rísa og sýningarsalir að skjóta rótum.

Ræflarokkið er mest á Astor Place og St Mark´s Place. Þar ber fólk marglitt hár, leðurföt og stálkeðjur. Og þangað fara ferðamenn til að stara úr sér augun.

Næstu skref