6. Forna Róm – Curia

Borgarrölt
Curia, Roma

Luca e Martina til vinstri, Curia til hægri

Curia

Við norðurenda Emilíubyrðu má sjá götuna Argiletum, sem að fornu var líflegasta gata borgarinnar. Handan götunnar rís Curia.

Þessi fundarsalur öldungaráðs Rómar er frá 80-29 f.Kr. og var endurreistur árið 283, en hin upprunalega Curia lýðveldistímans stóð við hliðina, þar sem nú er kirkjan Luca e Martina. Húsið varðveittist, af því að því var breytt í kirkju. Curia er fremur drungalegt múrsteinahús, en var auðvitað glæsilegra að fornu, þegar það var klætt marmara. Bronshurðirnar miklu eru eftirlíking, en hinum upprunalegu lét páfinn Alexander VII ræna á 17. öld handa Jóhannesarkirkju við Lateranum-torg, þar sem þær eru enn þann dag í dag.

Í húsinu eru núna tvær marmarabríkur, sem voru áður á Rostra.

Rostra

Rostra úr Curia, Roma

Rostra í Curia

Fyrir utan Curia er sigurbogi Septimusar Severusar, Arco di Severo, reistur 203 eftir sigra hans og tveggja sona hans gegn Pörþum. Athyglisvert er, að sonurinn Caracalla, sem varð keisari eftir Severus og lét drepa bróður sinn, Geta, lét líka má út nafn hans á sigurboganum. Boginn er sá fyrsti þeirrar gerðar, að súlurnar eru aðskildar frá veggnum að baki.

Við hlið sigurbogans, fjær Curia, er Rostra, ræðupallur torgsins, þar sem ræðuskörungar Rómaveldis komu fram. Slíkur pallur var á torginu allt frá 338 f.Kr., en sá pallur, sem nú stendur, er frá tímum Cesars, frá 44 f.Kr.

Framan við Rostra stendur Fókasarsúla, síðasta byggingaframkvæmd Rómartorgs, tekin úr hofi og reist 608 á vegum páfans í þakklætisskyni fyrir, að Fókas keisari gaf kirkjunni Pantheon til messugerðar.

Næstu skref