6. Austurborgin – Beurs

Borgarrölt

Hér sjáum við til vinstri, handan bátalægisins við Damrak, kauphöllina í Amsterdam, Beurs. Það er skrítin höll, reist um aldamótin í eins konar Jugend-stíl. Hún þótti mikið hneyksli á þeim tíma og þykir jafnvel enn.

Beurs, Damrak, Amsterdam

Beurs, til hægri, Damrak síki næst

Þetta er þunglamalegt tígulsteinshús, sem tekur sig einna bezt út frá þessu sjónarhorni.

Jugendstíll, ungstíll, eða Art Nouveau, nýstíll, kom til skjalanna rétt fyrir síðustu aldamót, þegar byggingarmeistarar voru orðnir þreyttir á stælingum gamalla stíla, á nýgrísku, nýrómversku og nýgotnesku. Mælirænni formfestu var kastað fyrir róða og frelsið fekk að ríkja. Stíllinn stóð ekki lengi, því að milli heimsstyrjaldanna leysti nytjastíll nútímans hann af hólmi.

Sá, sem hér horfir á tilviljanakennt útlit Beurs, á erfitt með að trúa, að eins konar nytjastíll ríkir að innanverðu, þar sem gríðarlegir stálbogar spanna yfir margra hæða kauphallarsal undir risavöxnum þakgluggum. Þannig blandaði byggingameistarinn Berlage saman innra svifi og ytri þunga.

Gamla kauphöllin, sem brann, var reist hér á sama stað árið 1611. Hún var þannig gerð, að skipin gátu siglt eftir henni miðri, undir þaki. Til beggja hliða voru svo sölubúðir á tveimur hæðum. Eftir lýsingum og myndum hlýjur það að hafa verið miklu skemmtilegri kauphöll en þessi.

Næstu skref