5. San Marco – Campo Santo Stefano

Borgarrölt
Campo Santo Stefano, Feneyjar

Campo Santo Stefano

Campo San Maurizio

Við göngum Calle delle Veste til baka, beygjum til hægri eftir Calle larga 22 Marzo og síðan Calle delle Ostreghe í beinu framhaldi af henni í áttina að Campo San Maurizio, tæplega 400 metra leið. Á leiðinni förum við yfir nokkrar síkisbrýr. Við höldum áfram til torgsins Campo San Maurizio, þar sem við sjáum skakkan turn Santo Stefano að húsabaki.

Krókóttir skurðirnir fylgja oft útlínum hinna rúmlega 100 eyja, sem borgin var reist á. Þeir mynda samfellt samgöngukerfi í borginni, að verulegu leyti óháð samgöngukerfi göngugatna. Milli tveggja nálægra staða getur verið margfalt lengra að fara á landi en sjó eða öfugt. Bátaleiðirnar hafa svo það umfram gönguleiðirnar, að hinar síðarnefndu henta síður vöruflutningum.

Skurðirnir hreinsast af straumunum, sem myndast í þeim vegna mismunar á flóði og fjöru. Eigi að síður safnast fyrir í þeim mikið af úrgangi og leirkenndri leðju, sem þarf að hreinsa, svo að skurðirnir fyllist ekki og verði ófærir bátum. Er þá skurði lokað, dælt úr honum, lagðir teinar í botninn fyrir vagna, sem flytja leðjuna frá dæluprömmum út í flutningapramma.

Campo Santo Stefano

Frá Campo San Maurizio höldum við beint áfram eftir Calle dello Spezier inn á næsta torg, Campo Santo Stefano, samtals um 100 metra leið.

Eitt stærsta torg borgarinnar, fyrr á öldum miðstöð kjötkveðjuhátíða og nautaats, en núna leikvöllur barna og kaffidrykkjustaður ferðamanna.

Frá suðurenda torgsins eru aðeins 100 metrar að Accademia-brú yfir Canal Grande. Torgið myndar því krossgötur gönguleiðanna milli Accademia, Markúsartorgs og Rialto-brúar, enda fer mikill flaumur fólks um torgið.

Næstu skref