4. Útrásir – Napoli

Borgarrölt

Castel Nuovo, Napoli

Napoli

Liðin er sú tíð, að Napoli var fallegur bær. Hann er hávaðasamur og illa farinn af óheyrilegri bílaumferð. Auk þess er þar öflugt Camorra-glæpafélag og rán og þjófnaðir eru tíðir. Hins vegar er hann vel í sveit settur fyrir þá Rómarfara, sem vilja skoða draugabæina Herculanum og Pompei, ganga á Vesuvius, aka Amalfí-strönd eða skreppa til Capri. Of langt er að fara frá Róm og til baka á einum degi, því að vegalengdin er 219 km. Hótelin á ströndinni sunnan við konungshöllina í Napoli eru kjörinn áningarstaður.

Galleria Umberto I, Napoli

Galleria Umberto I

Castel Nuovo

Hinn voldugi kastali, Castel Nuovo, við höfnina í Napoli var reistur 1282, umkringdur djúpu og breiðu kastalasíki. Borgarmegin við hann er inngangur í líki tveggja hæða sigurboga, reistur 1467.

Konungshöllin, Palazzo Reale, er við hlið kastalans, reist í upphafi 17. aldar og heldur útliti sínu, þótt hún hafi verið endurbyggð nokkrum sinnum. Hún er núna safn.

Á leiðinni milli kastala og hallar er farið framhjá Teatro San Carlo, óperu og leikhúsi frá 1737 og endurbyggðu 1816 í nýgnæfum stíl.

Andspænis leikhúsinu er Galleria Umberto I, krosslaga verzlunarmiðstöð undir feiknarlegu glerhvolfi.

Fyrir framan konungshöllina er hálfhringlaga risatorg, Piazza del Plebiscito.

Frá konungshöllinni eru aðeins 500 metrar að hótelhverfinu við ströndina suður frá miðbænum. Fyrir framan hótelin er Porto Santa Lucia, lystibátahöfn í skjóli við normanna-kastalann Castel d’Ovo, sem fékk núverandi útlit 1274.

Ef farið er lengra eftir ströndinni, er komið í næstu vík fyrir norðan, þar sem eru miklir garðar við ströndina, með útsýni til skagans Posillipo.

Næstu skref