4. Síkin – Graachten

Borgarrölt
Vindubrú úr timbri, Amsterdam

Vindubrú úr timbri

Herengracht

Næsta skeifusíki utan við Singel er Herengracht, „herramannasíki“, sem varð í upphafi 17. aldar að fína heimilisfanginu í Amsterdam. Þar reistu ríkustu kaupmennirnir hús sín og kepptu hver um annan þveran í glæsibrag.

Þessi hús standa nærri öll enn og hýsa skrifstofur og banka. Glæsilegust eru þau við aðra beygju síkisins, „gullbeygjuna“, við um það bil nr. 390, þar sem Nieuwe Spiegelstraat mætir síkinu. Rétt ofan við þriðju beygju, á nr. 502, er svo borgarstjórabústaðurinn.

Keizersgracht

Þriðja skeifusíkið heitir Keizersgracht eftir Habsborgaranum Maximilian I, sem meðal annarra landa réði Hollandi í upphafi 16. aldar. Við sjáum á húsunum, að þau eru ekki alveg eins ríkmannleg og við Herengracht. Hér bjuggu miðlungskaupmenn og vel stæðir iðnrekendur. Einnig hér standa 17. aldar húsin enn.

Prinsengracht

Yzta skeifusíkið innan við nýrri borgarmúrana á 17. öld er Prinsengracht. Þar eru íbúðarhúsin enn minni um sig og mikið er um vöruhús í bland. Mörgum þessara vöruhúsa hefur nú verið breytt í lúxusíbúðir, þótt ytra útlit sé óbreytt, enda eru þau yfirleitt friðuð.

Singelgracht

Utan um þessi hverfi 17. aldar var svo reistur nýr virkisgarður, innan við hann skeifusíkið Lijnbaansgracht og utan við hann síðasta skeifusíkið, Singelgracht. Það var raunverulegt virkissíki og engin borgarbyggð við það. Seint á 19. öld voru borgarvirkin rifin og fékkst þá dýrmætt rými fyrir samgönguæðar, garða, torg, opinberar byggingar og söfn.

Þá er komið að fyrstu göngunni og hún hefst hér