4. Markúsartorg – Pala d’Oro

Borgarrölt
Pala d'Oro, San Marco, Feneyjar

Pala d’Oro, San Marco

Eftir að hafa skoðað okkur um í kirkjunni förum við inn að kórbaki til að skoða gullbríkina miklu.

Við kórbak er gullbríkin, altaristafla kirkjunnar, gerð á 10. öld af feneyskum gullsmiðum, þrír fermetrar að stærð, þakin 250 smámyndum, sem hver um sig er skreytt dýrindis eðalsteinum og glerungi. Þessi altaristafla er einstök í sinni röð í heiminum og án efa sú verðmætasta. Napóleon rændi nokkrum eðalsteinum úr henni, en að öðru leyti hefur hún varðveizt.

Stundum er erfitt að greina á milli sökudólga og fórnardýra í ránum og gripdeildum veraldarsögunnar. Glerungnum í gullbríkinni rændu Feneyingar í Miklagarði 1204, þar sem þeir rændu líka hrossunum á kirkjuloftinu. Napóleon rændi síðan hrossunum af þaki Markúsarkirkju 1797, en þeim var síðan skilað, þegar hann hafði hrökklazt frá völdum.

Helgustu minjum kirkjunnar, jarðneskum leifum Markúsar guðspjallamanns, rændu Feneyingar raunar í Alexandríu 828 og voru stoltir af. Raunar gilti um þá eins og Víkinga og fleiri siglingaþjóðir, að oft var skammt milli kaupsýslu og gripdeilda á sjóferðum þeirra. Feneyingar sneru til dæmis fjórðu krossferðinni upp í að rústa og ræna keppninaut sinn í Miklagarði.

Næstu skref