3. Westminster – Westminster Palace

Borgarrölt
Westminster Palace - Parliament, London

Westminster Palace – Parliament

Westminster

Westminster Palace, London

Westminster Palace

Hér erum við komin í hjarta Westminster, hins gamla konungsbæjar, sem löngum var andstæða kaupmannabæjarins City. Konungarnir vildu vera í hæfilegri fjarlægð frá uppreisnargjörnum og illa útreiknanlegum rumpulýð borgarinnar. En London nútímans hefur einmitt orðið til við samruna City og Westminster í eina stórborg. Nú er Westminster hverfi stjórnmálamanna og embættismanna, arftaka konungsvaldsins.

Á Parliament Square eru styttur fleiri kunnra stjórnmálamanna en Churchill eins. Þar er t.d. Disraeli, Palmerston og meira að segja Abraham Lincoln.

Við blasir Westminster Palace, venjulega kölluð Houses of Parliament, enda byggð sem þinghús Bretaveldis, ákaflega víðáttumikil, reist 1840-65 í nýgotneskum stíl.

Westminster Hall, London

Westminster Hall

Westminster Hall

Hér var fyrst reist konungshöll um árið 1000, hin fyrsta í London. Fremst við torgið eru leifar konungshallarinnar, Westminster Hall, upphaflega reist af syni Vilhjálms bastarðs, Vilhjálmi Rufus, árin 1097-99.

Westminster Hall er merkasta hús veraldlegs eðlis frá gotneskum tíma í Englandi. Á sínum tíma var þetta stærsti salur Evrópu. Árin 1397-99 fékk hann þá mynd, sem hann hefur enn í dag. Frægastar eru bálkasperrurnar í þaki, ensk uppfinning, sem gerði kleift að brúa víðara haf með timburþaki en áður hafði þekkzt. Undir þessum bitum voru á miðöldum haldnar konunglegar veizlur, en síðan sat þar ríkisréttur með mörgum frægum réttarhöldum. Þar var Karl I dæmdur til dauða.

Westminster Palace

Þinghúsið mikla er sambyggt hinu gamla Westminster Hall og stendur á bak við það frá götunni séð. Næst og vinstra megin við Westminster Hall er grannur og frægur Clock Tower með klukkunni Big Ben. Hinum megin, við suðurenda hallarinnar, er hinn breiðari og stærri Victoria Tower.

Því miður er ekki auðvelt að njóta hallarinnar sem heildar úr þessari átt nú um stundir, því að fram fer viðamikil hreinsun á henni. Kaflinn frá Westminster Hall að Victoria Tower hefur þegar verið hreinsaður og sýnir vel hina mildu og ljósu liti, sem höllin bar í upphafi, gullinn og ljósbrúnan kalkstein.

Bezta útsýnið til hallarinnar er af brúnum yfir Thames, Westminster og Lambeth Bridge, og af bakkanum handan árinnar. Frá þeim stöðum séð rennur höllin saman í skipulega heild, þar sem formfasta hliðin, sem snýr að ánni, er mest áberandi.

Handan við Abingdon Street, götuna framan við höllina, er Jewel Tower, annað miðaldaminni, fyrrum fjárhirzla konungs.

Næstu skref