3. Suðvesturborgin – Historisch Museum

Borgarrölt

Við förum Sint Luciensteeg til baka og höldum áfram suður Kalverstraat nokkra metra, unz við komum að nr. 92 hægra megin. Þar er inngangurinn í borgarminjasafnið Historisch Museum, sem áður var munaðarleysingjahæli borgarinnar.

Þetta er safn fyrir þá, sem ekki hafa áhuga á söfnum. Það er svo vel gert, að óhjákvæmilegt er, að við öðlumst dálítinn áhuga á merkri sögu Amsterdam. Við förum sal úr sal og fylgjumst með þróun og vexti borgarinnar öld fyrir öld.

Historisch Museum, Amsterdam

Historisch Museum

Amsterdam var upprunalega fiskipláss, sem fékk eins konar kaupstaðarréttindi 1275. Íbúarnir voru aðallega Frísar. Fátt segir af borginni, fyrr en eftir brunann mikla 1452, er timburhús voru bönnuð og fyrirskipað var að byggja úr tígulsteini. Í ríkjamyndunum miðalda komst Amsterdam fyrst undir veldi Búrgundarhertoga og síðan Habsborgara.

Sextánda öldin einkenndist af tilraunum Hollendinga til að losna undan oki hinnar spönsku deildar Habsborgara. Vilhjálmur þögli barðist við hertogann af Alba og varð forfaðir konungsættarinnar af Oranje. Á þessum tíma voru Hollendingar knúnir áfram af kalvínismanum, sem var í ofsafenginni
andstöðu við ofsafengna kaþólsku Filipusar II af Kastilíu.

Árið 1602 var Austur-Indíafelagið stofnað, 1609 Amsterdambanki og 1611 kauphöllin. Borgin var virkur aðili að þessum fyrirtækjum og varð heimsveldi á þessum áratug. Um þetta leyti voru gerðir Herengracht, Keizersgracht og Prinsengracht. Miðborgin fékk þann svip, sem hún ber að mestu enn. Holland eignaðist nýlendur út og suður og fræga flotaforingja, sem eru grafnir í Nieuwe Kerk.

Á stórveldistíma sínum mynduðu Hollendingar mikilvægan hlekk í þróunarkeðju Norðvestur-Evrópu, sem fól í sér tæknilegt stökk frá miðöldum inn í vísindatíma nútímans. Siglingar örvuðu handverk, sem örvaði svo aftur siglingar. Þetta hlóð upp á sig og Amsterdam varð Evrópumiðstöð fjármála, kaupsýslu, iðnaðar, tækni, vísinda, lista og menningar.

Amsterdam og Hollendingar urðu á öldinni átjándu að víkja fyrir afli London og Englendinga. Hollendingar voru samt búnir að koma sér vel fyrir, svo sem sýna dæmin af Unilever, Royal Dutch Shell og Philips, stórveldisfyrirtækjum nútímans. Á síðustu áratugum felast þó mestu afrek Hollendinga í gífurlegri tækni við gerð flóðgarða.

Næstu skref