3. Sjáland – Kronborg

Borgarrölt
Kronborg, Sjælland

Kronborg

Eftir 30 mínútna akstur til viðbótar komum við til Helsingjaeyrar (Helsingör). Við höldum okkur þar við Strandvejen að höfn Svíþjóðarferjanna, því að þaðan er leiðin að Krónborg greinilega merkt. Við erum komin að gömlum hornsteini Danaveldis, þaðan sem skotið var á skip þau, er ekki greiddu Eyrarsundstoll.

Krónborg var reist 1574-85 í hollenzkum endurreisnarstíl, fremur kuldaleg að sjá, úr rauðum tígulsteini og með koparþaki. Inni má skoða einn af stærstu hallarsölum Evrópu, upprunalegar eikarinnréttingar í kirkju, svo og híbýli konungs og drottningar. Einna merkast er þó danska sjóferðasafnið, sem er til húsa í kastalanum. Krónborg er opin 10-17 á sumrin og 11-15 á veturna.

Hér lætur Shakespeare harmleik Hamlets gerast, og á þeim forsendum flykkjast hingað enskumælandi ferðamenn. Við bíðum þó ekki eftir draugagangi, heldur förum í bæinn og finnum rólegt markaðstorgið innan um gömul hús og miðaldagötur. Við fáum okkur hádegissnarl á Gæstgivergården Torvet til að njóta betur hins gamla tíma.

Næstu skref