3. Róm – matur

Borgarrölt

Veitingar

Cesarina, restaurant, Roma

Cesarina

Ítalir borða lítið á morgnana, fá sér kannski espresso kaffi og cornetto á kaffihúsi eða bakaríi úti á horni. Hádegisverður byrjar oftast um 13:30 og kvöldverður um 20:30. Hvort tveggja eru heitar máltíðir og nokkurn veginn jafngildar. Ítalir eru mikið fyrir mat og nota hann ótæpilega.

Þeir eru hins vegar hófsamir á vín og drekka margir hverjir bara vatn. Kranavatn í Róm er mjög hreint og gott, eitt hið bezta á Ítalíu, en samt fá flestir heimamenn sér aqua minerale, flöskuvatn á veitingahúsum, oft með koltvísýringi, gassata

Ítalskur matseðill skiptist oft í fimm hluta, antipasti, forrétti; pasti eða asciutti eða primi piatti, pastarétti; secundi piatti, fisk- eða kjötrétti án meðlætis; contorni eða verdure, grænmeti eða meðlæti; og dolci, frutti og formaggi, eftirrétti, ávexti og osta.

Engar reglur er um, hve marga rétti fólk fái sér eða í hvaða röð. Sumir Ítalir fá sér til dæmis fyrst forrétt og síðan tvö pöstu, hvert á fætur öðru. Algengast er, að fólk fái sér þrjá rétti, til dæmis forrétt, pasta og aðalrétt eða pasta og aðalrétt með hliðarrétti eða pasta og aðalrétt og eftirrétt.

Gróflega er verðlagið þannig, að forréttur, pasta og flaska af víni hússins kosta hvert um sig tvöfalt verð hliðarréttar eða eftirréttar og að aðalréttur kostar þrefalt verð hliðarréttar eða eftirréttar. Verðið, sem hér í bókinni er skráð hjá hverju veitingahúsi, er yfirleitt miðað við forrétt, pasta, aðalrétt og hliðarrétt eða eftirrétt.

Skynsamlegt er að velja sér vín hússins, bianco eða rosso, því að þau eru yfirleitt vel valin og ágætlega drykkjarhæf. Áhugamenn um vín geta þó skyggnzt í listann til að finna eitthvað nýtt, því að ekkert land á eins mikið úrval mismunandi flöskumiða. Almennt séð er ítalskt vín gott, en ekki mikið um hágæðavín. Ítalir taka vín og mat ekki eins alvarlega og Frakkar gera.

Hvergi í heiminum er betri þjónusta en á ítölskum veitingahúsum. Ítalskir þjónar eru snarir í snúningum og vilja, að gestum líði vel. Þeir eru snöggir að bera fram matinn, unz kemur að eftirrétti, en þá færist allt í fyrsta gír. Það stafar af, að Ítalir vilja skófla í sig matnum, en ekki fara strax að því loknu, heldur sitja lengi og tala saman. Hröð þjónusta táknar alls ekki, að þjónninn vilji losa borðið sem fyrst.

Veitingahús Rómar eru yfirleitt lítil og hreinleg, stundum tilviljanakennt innréttuð. Þau hafa undantekningarlítið lín í dúkum og þurrkum, oftast hvítt.

Útlendingum finnst gjarna, að ítölsk matreiðsla felist í pöstum á pöstur ofan. Ítalir tala sjálfir ekki um ítalska matreiðslu, heldur feneyska, toskanska, lígúríska, latínska og svo framvegis eftir borgum og héruðum.

Og svo hefjast göngurnar.

Næstu skref