3. Midtown – Central Park

Borgarrölt
Central Park, New York 4

Central Park

Central Park

Central Park er lunga borgarinnar, orðið til fyrir baráttu skáldsins W. C. Bryant, hannað af Olmsted og Vaux árið 1856 og var 15 ár í uppbyggingu. Garðurinn er risastór, 840 ekrur milli 5th og 8th Avenues, 59th og 110th Streets. Vötn og hæðir voru gerðar með handafli og plantað 100.000 trjám.

Helzta einkenni hans er, að umferð akandi og gangandi fólks er skilin í sundur. Hægt er ganga um garðinn þveran og endilangan án þess að fara yfir bílagötu, enda er bílaumferðin að mestu leyti neðanjarðar. Gönguleiðirnar liggja í sveigjum um allan garðinn, yfir brýr og boga, 46 talsins, með síbreytilegu útsýni.

Central Park, New York

Central Park

Central Park skiptist í stórum dráttum í tvennt um vatnsþróna í miðjum garði. Norðurhlutinn er minna skipulagður og skiptist í tiltölulega stór svæði. Suðurhlutinn er skipulagðari, smágerðari og raunar fjölbreyttari, með smávötnum, skógarlundum og klettahæðum.

Skemmtilegast er að fara um garðinn á sunnudögum, þegar Manhattan-búar nota hann fyrir stofu. Sumir eru þar með garðveizlu í farangrinum, aðrir skokka eða hjóla. Hópar eru í blaki eða hornabolta. Nokkrir keppa á hjólabrettum og aðrir róa um á bátum. Og svo eru þeir, sem lesa bækur eða sofa hreinlega með dagblaðið yfir andlitinu.

Ekki er ráðlegt að fara um Central Park í myrkri og ekki heldur fáförular slóðir hans að degi til. Haldið ykkur í kallfæri við mannþröngina.

Belvedere Castle

Við göngum beint frá 77th Street inn í garðinn og komum að The Lake, þar sem við beygjum til vinstri. Þar verður fyrir okkur Balcony Bridge, sem liggur yfir norðurenda vatnsins. Þaðan er ágætt útsýni yfir vatnið, skógarhæðirnar, Ramble, að baki þess og skýjakljúfana aftast.

Við höldum áfram til norðurs að Belvedere Castle, sem stendur einna hæst í garðinum. Það er lítil kastalabygging í Disneyland-stíl með ágætu útsýni til norðurs yfir hornaboltavöllinn stóra, þar sem fjöldi leikja er háður samtímis, og til suðurs yfir skógarhæðirnar.

Central Park, New York 2

Central Park

Við austurhlið garðsins sjáum við Metropolitan Museum of Art og hérna megin við það einsteinung frá Egyptalandi, kallaðan Nál Kleópötru. Við getum tekið krók að nálinni, framhjá bókalesendum og sofandi fólki, eða bara farið umhverfis litla vatnið hér fyrir neðan, Belvedere Lake. Í nágrenni nálarirnar eru oft útitónleikar sinfóníuhljómsveita.

The Ramble

Fyrir sunnan vatnið tekur við villtasti hluti garðsins, The Ramble. Það eru skógi vaxnar hæðir og klettaásar með mjögsveigðum gangstígum til allra átta, svo og nokkrum síkisbrúm. Þetta er vinsælt svæði ástarlífs. Úr Ramble förum við suður yfir The Lake á Bow Bridge, steypujárnsbrú, sem býður gott útsýni til beggja handa.

Handan brúarinnar förum við til vinstri og komumst að stalli, sem formlega séð er miðja garðsins. Á stallinum er Bethesda-brunnurinn með styttu af englum vatnsins. Þar í kring eru oft sveitir hjólaskautara. Og þar er líka hljómsveitarpallur, sem oft er notaður um helgar.

The Mall

Hér getum við tekið krók til austurs að tjörninni Conservatory Pond. Þar er stytta af H. C. Andersen, ásamt með ljóta andarunganum, og önnur af Lísu í Undralandi, ásamt með brjálaða hattaranum, báðar vinsæl klifurtæki barna.

Við snúum til baka að Bethesda-brunni og förum þaðan til suðurs eftir beinu götunni, sem heitir The Mall. Hún liggur framhjá hljómsveitarpalli, þar sem oft er eitthvað um að vera. Síðan förum við framhjá The Dairy, sem er upplýsingamiðstöð svæðisins.

Frá upplýsingamiðstöðinni förum við til vinstri að dýragarðinum, Zoo, sem er í austurhlið garðsins. Það er gamall dýragarður, mikið sóttur og nokkuð þreytulegur, enda handhægur ferðamönnum. Hann stenzt engan samanburð við aðaldýragarð borgarinnar í Bronx. Norðan við hann er sérstakur dýragarður fyrir börn, Children´s Zoo.

Næstu skref