3. Forna Róm – Foro di Augusto

Borgarrölt

Foro di Augusto

Við förum aftur niður tröppurnar og göngum eftir Via Alessandrina, meðfram grindverkinu, sem snýr að Trajanusarmarkaði, framhjá Casa dei Cavalieri di Rodi, reist 1464-1471 í feneyskum endurreisnarstíl, svo sem sjá má af yfirbyggðu svölunum, sem snúa að Foro di Traiano.

Forum Augusti, Roma

Foro di Augusto

Næst blasa við leifar Foro di Augusto og musteris Marz hefnanda, Martius Ultor, sem Augustus keisari lét reisa árið 31 f.Kr. til minningar um sigur sinn á Cassiusi og Brutusi. Þetta musteri var lengi síðan ættarmusteri afkomenda hans. Beggja vegna þess eru leifar af bogadregnum byrðum. Milli byrðanna og musterins eru tröppur, sem lágu til skuggahverfisins Suburra.

Síðasti hluti fornleifasvæðisins handan grindverksins er Foro di Nerva, framan við hótelið Forum. Þetta torg vígði Nerva keisari árið 98. Það var langt og mjótt, umhverfis hina fornu aðalgötu Argiletum, sem lá frá Forum Romanum, meðfram Curia til Suburra. Lítið sést af sögufrægum rústum musteris Minervu, sem hér var miðsvæðis á torginu, því að páfinn Páll V lét ræna þær á 17. öld til að byggja gosbrunn á Janiculum.

Í fornöld var hér eitt keisaratorgið enn í röð, þar sem nú eru gatnamót Via dei Fori Imperiali og Via Cavour. Það var torg Vespanianusar keisara með musteri friðarins og bókasafni, þar sem nú er kirkjan Santi Cosma e Damiano.

Norðaustan torgsins er turn frá 13. öld, Torre de’Conti.

Næstu skref