200 mílur í stað 50

Greinar

Þeir hafa á réttu að standa sjávarútvegsmennirnir 50, sem birta í dag í blöðunum áskorun um 200 mílna fiskveiðilögsögu. Vísir vill eindregið taka undir þessa áskorun, sem hljóðar svo:

,,Undirritaðir skora á Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn að lýsa nú þegar yfir, að Íslendingar muni krefjast 200 mílna fiskveiðilögsögu á væntanlegri hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, og skipi sér þar með á bekk með þeim þjóðum, sem hafa lýst yfir 200 mílum.”

Vísir hefur hvað eftir annað hvatt til þess, að Íslendingar flæki sig ekki í aukaatriðum í þjarki um 50 mílna fiskveiðilandhelgi, heldur snúi sér af auknum þunga að alvörumálinu sjálfu, undirbúningi hafréttarráðstefnnnnar og útfærslu fiskveiðilandhelginnar í 200 mílur. Um þetta sagði Vísir m.a. hér í leiðara18. maí í vor:

,,Vissulega er sjálfsagt fyrir okkur að halda áfram að kvelja brezku togarana á miðunum og halda uppi samningaþófi við Breta, þótt þetta sé aukaatriði. En við eigum nú að snúa okkur í alvöru að undirbúningi 200 mílna fiskveiðilögsögu, svo að hún geti sem fyrst komið til framkvæmda eftir hafréttarráðstefnuna, sem hefst að ári.

Við eigum ekki aðeins að styðja 200 mílna stefnu þróunarlandanna í orði, heldur líka á borði. Meðan við erum sér á parti með 50 mílna stefnuna, veitum við þróunarlöndunum, bandamönnum okkar í landhelgismálinu, ekki nægilegan stuðning. Við eigum fyrir hafréttarráðstefnuna að lýsa því yfir, að við teljum 200 mílna fiskveiðilögsögu og námuvinnslulögsögu heppilegustu leiðina og að við hyggjumst taka hana upp, ef tilskilinn meirihluti fáist á ráðstefnunni.

Við megum ekki flækja okkur of mikið í aukatriðum málsins, þorskastríði á miðunum og samningaþófi í ráðherrabústaðnum, en beita okkur þeim mun betur að alvöruskákinni sjálfri, undirbúningi hafréttarráðstefnunnar. Á þeim vettvangi getum við skjótlega náð 200 mílna fiskveiðilögsögu, þótt við getum nú ekki náð virkri 50 mílna landhelgi”.

Sömu sjónarmið komu fram í leiðurumVísis 16. og 17. maí í vor. Staðreynd málsins er, að við höfum enn ekki náð 50 mílna landhelgi vegna ofbeldis Breta og Vestur-Þjóðverja. Sú útfærsla er í rauninni enn ekki komin til framkvæmda. Við getum því alveg eins lýst yfir 200 mílna fiskveiðilöguögu og efnahagslögsögu, er komi til framkvæmda, þegar við höfum hafréttarráðstefnuna á bak við okkur.

Um þetta sagði Vísir í leiðara 22. júní s.l.: ,,Ef okkur tekst vel að undirbúa hafréttarráðstefnuna, getum við staðið upp með fulla alþjóðlega heimild fyrir allt að 200 mílna landhelgi, án þess að við þurfum að veita Bretum hinar minnstu undanþágur. Til hvers ættum við þá að vera að semja við staurblinda einstefnumenn?”

Allur fyrirgangurinn út af 50 mílna landhelginni, þar á meðal bolabrögð Breta og Vestur-Þjóðverja gegn henni, er aðeins skammvinnt millispil. Frumkvæðið í landhelgismálunum er komið í hendur þróunarlandanna, sem munu fá 200 mílna efnahagslögsögu, þar á meðal fiskveiðilögsögu, samþykkta á hafréttarráðstefnunni.

Við skulum því hætta að tala um 50 mílur og lýsa strax yfir 200 mílum með fyrirvara um samþykki hafréttarráðstefnunnar.

Jónas Kristjánsson

Vísir