2. Páfaríki – Castel Sant’Angelo

Borgarrölt

Castel Sant’Angelo

Við norðurenda brúarinnar blasir við mikilúðlegt grafhýsi Hadrianusar, reist 135-139. Sívalningurinn er að mestu upprunalegur, í stíl etrúskra grafhýsa. Þar var varðveitt aska Hadrianusar og eftirmanna hans allt til Septimusar Severusar. Ofan á sívalningnum var þá jarðvegshaugur og þar trónaði efst líkneski af Hadrianusi í fereykisvagni.

Þegar Aurelius keisari lét víggirða borgina 270, gerði hann grafhýsið að virki í borgarmúrnum. Gregorius I páfi lét reisa kapellu uppi á haugnum 590, helgaða Sant’Angelo, og af honum er 18. aldar bronsstyttan, sem nú trónir á virkinu. Grafhýsinu var breytt í kastala, sem fékk nafn það, er hann ber enn í dag.

Nikulás V lét reisa múrsteinshæð ofan á sívalninginn og turna á hornin um miðja 15. öld. Alexander VI lét reisa áttstrendu fallbyssustæðin umhverfis virkið um 1500. Virkið var þá tengt páfahöllinni með göngum í löngum múrvegg, Passetto, sem páfar gátu flúið eftir inn í virkið, ef hættu bar að höndum. Clementius VII flúði í virkið undan herjum Karls V Frakkakonungs 1527 og lét gera vistarverur þar.

Síðar var kastalinn löngum notaður sem herbúðir og fangelsi, en nú er hann orðinn að safni. Í óperunni Tosca eftir Puccini varpar söguhetjan sér út af virkisveggnum.

Gengið er inn í safnið frá hliðinni, sem snýr að ánni.

Farið er upp rampa og tröppur í megingarð virkisins, þar sem er upprunalega marmarastyttan af engli virkisins, frá 1544. Rampinn er að verulegu leyti í upprunalegu ástandi, með svart-hvítum steinfellumyndum. Við efri enda hans var útfararklefi Hadrianusar.

Safnið er að mestu hernaðarlegs eðlis. Á efstu hæð eru vistarverur þriggja páfa, Piusar IV, Juliusar II og Páls III. Vistarverur Juliusar eru hannaðar af Bramante. Þaðan er gott útsýni yfir borgina. Á þessari hæð er einnig bókasafn og leyndarskjalasafn páfastóls.

Á næstefstu hæð er megingarðurinn, Cortile di Onore, garður Alexanders VI af Borgia, dómsalurinn í kastalamiðju, nokkrir fangaklefar, svo og kapella Leo X, hönnuð af Michelangelo, reist þar sem upprunalega kapellan var. Í fangaklefunum sat meðal annarra munkurinn og vísindaheimspekingurinn Giordano Bruno.

Næstu skref