2. Hverfin – Chinatown & TriBeCa

Borgarrölt

Chinatown

Chinatown, New York

Chinatown

Norðan við bankahverfið taka við tvö hverfi. Austan megin er Chinatown, sem áður var talið markast af götunum Bowery, Mulberry, Worth og Canal Streets, en hefur síðar flætt inn í nálægar götur. Hjarta þess er í Mott og Pell Streets.

Hverfið ber kínverskan svip. Auglýsingaskilti eru á kínversku og símaklefarnir eru með kínverskum pagóðu-turnum. Á götuhornum eru seld sjö blöð á kínversku.

Helzta aðdráttarafl hverfisins eru 150 kínversku veitingahúsin, sem eru meðal hinna ódýrustu í borginni og bjóða sum hver upp á mjög góðan mat. Frá veitingahúsunum og matvöruverzlununum leggur notalega austrænan ilm um göturnar. Mest er um að vera í hverfinu á sunnudögum, þegar Kínverjar úr öðrum hverfum koma til að verzla og borða.

Chinatown er fátækt hverfi. Í kjöllurunum spila Kínverjar fjárhættuspil og uppi á hæðunum þræla þeir í fataiðnaði. Glæpaflokkar kreista verndarfé af eigendum verzlana og veitingahúsa. En ferðamenn verða ekki varir við þessa skuggahlið

TriBeCa

Vestan megin er hverfið TriBeCa. Nafnið er stytting á Triangle Below Canal Street, en hverfið myndar einmitt þríhyrning  eða trapizu milli Canal Street, West Broadway, Barclay Street og Hudson-ár. Stundum er hverfið kallað SoSo, sem þýðir South of SoHo, enda er það eins konar framlenging af SoHo til suðurs.

Áður var þetta hverfi vandaðra og skrautlegra, nokkurra hæða vöruskemma og léttiðnaðarhúsa úr steypujárni, sem komið var í niðurníðslu. Þegar húsaleiga fór að rjúka upp úr öllu valdi í SoHo, uppgötvuðu listamennirnir stóru salina í TriBeCa og fluttu vinnustofur sínar suður fyrir Canal Street.

Nú hafa þeir endurlífgað hverfið svo gersamlega, að húsaleigan er farin að stíga ört og hrekja þá til annarra hverfa. Barir, veitingahús, diskó og tízkuverzlanir hafa sprottið eins og gorkúlur.

Næstu skref