2. Holland – Aalsmeer

Borgarrölt

Við tökum A4 suður úr borginni, förum framhjá flugvellinum Schiphol og beygjum skömmu síðar afleggjara til Aalsmeer. Það var fyrrum fiskibær, en er nú aðsetur stærsta blómamarkaðar í heimi. Við erum snemma á ferð, því að fjörið er mest á markaðinum kl. 8-10, þótt honum sé ekki lokað fyrr en 11:30. Hann er lokaður laugardaga og sunnudaga.

Af svölum sjáum við niður í uppboðssalina þrjá, þar sem kaupendur úr öllum heimshornum sitja á stigapöllum með góðu útsýni til leiksviðsins, þar sem blómin eru sýnd. Þeir hafa hljóðnema til að spyrja í og hnapp til að gera tilboð með. Öllu er þessu tölvustýrt.Aalsmeer blómauppboð

Blómunum er ekið í vögnum inn á sviðið. Risastór klukka ofan við sviðið fer í gang og skráir verðið í einingum frá 100 niður í 0 á nokkrum tugum sekúndna. Sá kaupandi, sem er fyrstur til að ýta á sinn hnapp, fær blómin á því verði, sem klukkan sýnir. Sá, sem er of bráður, kaupir of dýrt. Og hinn, sem er of varfærinn, fær ekki neitt.

Þannig er verzlað fyrir sjö milljónir gyllina á hverju ári. Merkilegt nokk er það ekki túlipaninn, sem hefur forustuna, heldur rósin. Af henni er seldur hér yfir hálfur milljarður eintaka á ári hverju.

Með hinu sérstæða uppboðskerfi er þetta selt með hvínandi hraða og til mikillar skemmtunar fyrir áhorfendur. Síðan eru blómin flutt til Schiphol, þaðan sem flogið er með þau, meðal annars til Íslands. Fyrir Hollendinga er þetta rosalegur bissness.

Áfram skal haldið