2. Dublin – Mulligan’s

Borgarrölt
Stag´s Head, bar, Dublin

Stag´s Head

Stag’s Head

Bezta kráarmatreiðsla miðbæjarins er í gamalli og torfundinni krá frá 1770, Stag’s Head, sem er í litlu sundi samsíða Dame Street.

Þessi fegursta krá borgarinnar var færð í núverandi búning rétt fyrir aldamót og bjargaði nýlega lífi sínu með aðstoð húsfriðunarmanna. Hún er í fögrum Viktoríustíl með stórum speglum og bogariði yfir bar, gömlu timburlofti, miklum hjartarhaus yfir miðjum bar, mahóníborðum með marmaraplötum, steindum gluggum og fagurgrænum sófum.

Matreiðslan er einföld og maturinn bragðgóður, soðið beikon og hvítkál, írsk kjötsúpa, samlokur og borgarar með frönskum.

Gestir eru margir hverjir vel stæðir, meðal annarra mikið af lögmönnum.

(Stag’s Head, 1 Dame Court / Dame Lane, C3)

 

Bailey

Ein af þremur frægum krám við hina stuttu hliðargötu Duke Street út frá Grafton Street er Bailey, sem skartar dyrunum að 7 Eccles Street, þar sem Leopold Bloom bjó, söguhetjan í Ódysseifi eftir James Joyce.

Bailey, bar, Dublin 3

Bailey

Þetta er fín krá, teppalögð og búin vönduðum húsgögnum, þar á meðal notalegum sófum og hægindastólum, speglum á áberandi stöðum, meðal annars að barbaki. Hún er björt og nánast nútímaleg. Stórir gluggar snúa að götu, setustofur framan við og innan við og veitingasalur uppi á annarri hæð.

Nú orðið er mest um ferðamenn hér og aðra fína gesti, en áður var þetta samkomustaður skálda og listamanna, blaðamanna og stúdenta. Maturinn er vinsæll.

(The Bailey, 4 Duke Street, C3)

Mulligan’s

Þreytulega blaðamannakráin Mulligan’s við Poolbeg Street rétt hjá höfninni, dagblöðunum og Trinity-háskóla er ein af elztu krám borgarinnar, frá 1782, og ber aldurinn með sér. Hennar er getið í skáldsögunni Dubliners eftir James Joyce.

Kráin liggur í U með einum bar á hvora hlið og setuklefa þar á milli úti við glugga. Lágt er til lofts, dimmt og drungalegt, og húsbúnaður eins slitinn og frekast getur orðið. Tvö herbergi eru inn af kránni, óvistleg með öllu. Húsbúnaður er tilviljanakenndur, fátæklegur og ósmekklegur

Gestir eru margir ölmóðir, enda er bjórinn talinn einna beztur í borginni. Hér rennur hann í stríðum straumum frá morgni til kvölds. Hingað koma blaðamenn af skrifstofunum í kring, hafnarverkamenn og námsmenn.

(Mulligan’s, 8 Poolbeg Street, D4)

Næstu skref