2. Austurborgin – Warmoesstraat

Borgarrölt

 

Warmoesstraat, Amsterdam
Warmoesstraat

Warmoesstraat

Frá hótelinu göngum við til hægri eftir Warmoesstraat, elztu götu borgarinnar. Þar bjuggu á 15. öld fínustu borgararnir. Þegar þeir fluttu á 17. öld til Herengracht, varð þessi gata að helztu verzlunargötunni og hótelgötunni. Hertoginn af Alba bjó hér, þegar hann vildi sauma að Hollendingum.

Tvær kaffiverzlanir endurspegla enn hina gömlu tíma. Thee en koffiehandel á nr. 102 og Geels & Co á nr. 67. Og farfuglaheimilið á nr. 87, sem bauð gistingu á Fl 17 og Fl 12 í sal, síðast þegar við gengum hjá, endurspeglar líka gamla tímann.

Við tökum fljótt eftir, ef við höfum ekki gert það á siglingunni um síkin, að mjóu gaflhúsin slúta í rauninni fram. Þau eru byggð svona af ásettu ráði. Efst í gaflinum er bálkur fyrir blokk. Þannig má á reipi draga stóra muni upp á hæðirnar, án þess að reka þá utan í. Engin leið er að koma þeim upp þrönga stigana. Þessa iðju verða menn að stunda enn þann dag í dag um alla borg.

Við förum götuna út að Oudebrugsteeg, sem liggur til vinstri og lítum aðeins inn í hana, því að þar er þétt setinn bekkurinn af smáhótelum, börum og búðum. Síðan förum við spölkorn til baka eftir Warmoesstraat, unz við sjáum Oudekerk til vinstri.

Næstu skref