17. Verona – Castelvecchio

Borgarrölt

Castelvecchio

Castelvecchio, Verona

Castelvecchio

Við förum frá kirkjunni til baka eftir Via Duomo, beygjum til hægri og förum 1200 metra eftir Corso Cavour að gamla borgarkastalanum, Castelvecchio.

Fagurlega hannaður kastali Scaligeri-hertoganna, reistur 1355-1375, á valdatíma Cangrande II, enn í góðu ástandi og hýsir nú glæsilega skipulagt listasögusafn, sem auðvelt er að skoða í réttri tímaröð. Það spannar síðrómverska list, frumkristna list, miðaldalist og list endurreisnartímans, þar á meðal verk Giovanni Bellini, Tiziano og Veronese.

Ponte Scaligero

Ponte Scaligero, Verona

Ponte Scaligero

Handan vopnadeildar safnsins er göngubrú, sem veitir gott útsýni til brúarinnar Ponte Scaligero.

Miðaldabrú, reist 1354-1376, á valdaskeiði Cangrande II, helzti vettvangur gönguferða borgarbúa nú á tímum. Brúin skemmdist í heimsstyrjöldinni síðari, en hefur verið gerð upp að nýju.

Frá Castelvecchio er bein, 600 metra leið eftir Via Roma til Piazza Brà, þar sem við hófum þessa gönguferð um Verona.

Þar með lýkur ferð okkar til Verona og dvöl okkar á Feneyjasvæðinu. Ef við ætlum til Feneyja, er gott að vita, að þangað eru 114 km á hraðbrautinni.

Úti að sinni er Feneyjaævintýri.