14. Toledo – Catedral gótica

Borgarrölt
Catedral gótico, Toledo

Catedral gótica, Toledo

Catedral gótica

Frá kastalanum förum við til dómkirkjunnar, upprunalega í gotneskum stíl franskættuðum frá 13. öld, en dálítið færð til byggingarstíla tveggja næstu alda. Vesturverkið og turninn eru í hreinum stíl gotneskum. Í turninum hangir 17 tonna klukka frá miðri 18. öld. Kirkjan er einkum þekkt fyrir höggmyndir og málverk, sem í henni eru. Einnig fyrir kórbekkina, sem eru vandlega útskornir. Rodrigo Alemán skar neðri hluta þeirra í lok 15. aldar. Ennfremur er dómkirkjan þekkt fyrir Transparente eða Gegnsæja altarið, það er skærlita altaristöflu útskorna, sem sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Taflan er í kúrríkskum skreytistíl. Gluggum var komið fyrir ofan við töfluna til að ljós og skuggar gætu leikið við útskurðinn.

Norðan við dómkirkjuna er mikill fjöldi góðra matstaða, m.a. Adolfo.

San Juan de los Reyes, Toledo

San Juan de los Reyes, Toledo

Áfram höldum við til vesturs, eftir götunni Ángel Santo Tomé til klaustursins San Juan de los Reyes. Á leiðinni er kirkjan Santo Tomé. Við hana er márískur turn frá 14. öld. Inni í kirkjunni er frægt málverk eftir El Greco. Hann hét réttu nafni Domenico Teotocopulos, fæddur á Krít, en bjó lengst af í Toledo, í lok 16. aldar og upphafi hinnar 17.

Rétt aftan við kirkjuna er hús og safn Grecos, Casa y Museo del Greco. Verk hans eru víðar í bænum, til dæmis í safninu Santa Cruz, sem er rétt norðan við Alcázar.

Rétt hjá safninu er önnur af tveimur sínagógum borgarinnar, Sinagoga Del Tránsito, frá 14. öld. Að utan er hún ekki merkileg að sjá, en að innan eru márískar skreytingar. Hin sínagógan, Santa María la Blanca, er á svipuðum slóðum.

San Juan de los Reyes

Næstum vestur við Cambrón-hlið er klaustrið San Juan de los Reyes. Það var reist í lok 15. aldar á vegum Ferdinands og Ísabellu í gotneskum stíl. Klaustrið er glæsilegt að utanverðu og skrautlegt að innanverðu.

Hér við Cambrón-hliðið er veitingahúsið Chirón.

Margt fleira er merkilegt að skoða í Toledo. Þar á meðal er aðaltorg borgarinnar, Plaza del Zocodover, norðan við Alcázar og rétt hjá Santa Cruz-safninu, þar sem meðal annars eru málverk eftir El Greco. Það er að minnsta kosti dagsverk að rölta um borgina fram og aftur til að kynnast henni.

Þá er bara að fara til Madrid og ljúka þessari ökuferð.