13. Íslendingaslóðir – Jónshús

Borgarrölt

Utan elzta hlutans

Hér hefur aðeins verið lýst Íslendingaslóðum í elzta hluta miðbæjar Kaupmannahafnar. Við höfum ekki farið út í Kristjánshöfn til að skoða hús Íslandskaupmanna við Strandgötu eða minnast Spunahúss og Rasphúss, sem biðu fyrr á öldum sekra manna af Íslandi.

Jónshús, København

Jónshús

Við höfum ekki heldur farið norður í átt til Klampenborg til að skoða Bernstorffshöll, þar sem Eiríkur á Brúnum sat með konungafólki, Andrésarklaustur, þar sem Nonni (séra Jón Sveinsson) bjó í þrjá áratugi, eða heilsuhælið í Klampenborg, sem Jón Hjaltalín læknir stofnaði 1844.

Á leið okkar höfum við einkum staldrað við menn og atburði fyrri alda. Íslendingar 20. aldar eru ekki eins tengdir gamla miðbænum og fyrri kynslóðir þeirra voru, því að borgin hefur þanizt svo út um allt, að eingin leið er að rekja íslenzk spor 20
. aldar í einni leiðarlýsingu.

Jónshús

Eitt hús skulum við þó heimsækja að lokum, því að það er orðið og verður sennilega áfram miðpunktur Íslendinga í Kaupmannahöfn. Það er Jónshús á horni Stokkhúsgötu og Austurveggs og rís þar móti okkur eins og hóftungufar Sleipnis í Ásbyrgi.

Skrifstofa Jón Sigurðssonar, Jónshús, København

Skrifstofa Jón Sigurðssonar, Jónshús

Jónshús, félagsheimilið, København

Jónshús, félagsheimilið

Á þriðju hæð hússins bjuggu þau hjónin Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir 1852-1879. Þar sat Jón löngum stundum við stafngluggann og skrifaði. Þar réðust mörg þau ráð, sem mörkuðu spor í sögu Íslands. Og þar áttu margir Íslendingar sitt athvarf í Hafnarferðum.

Carl Sæmundsen gaf Alþingi Íslendinga húsið 1966 og það hefur síðan sýnt því þann sóma að láta innrétta það í þágu Íslendinga í Kaupmannahöfn, svo að nú er það orðinn helzti samkomustaður þeirra.

Á tveimur neðstu gólfunum er hið eiginlega félagsheimili. Í kjallara er snyrtiaðstaða og lítill samkomusalur. Á næstu hæð er veitingasalur og setustofa, þar sem íslenzk blöð liggja frammi.

Íslendingafélagið og Félag íslenzkra námsanna í Kaupmannahöfn sjá um rekstur félagsheimilisins. Á sumrin er lögð áherzla á að taka á móti gestum og ferðamönnum heiman frá Íslandi.

Á annarri hæð er fræðimannsíbúðin, þar sem íslenzkum vísindamönnum gefst kostur á að búa endurgjaldslaust í þrjá mánuði. Á fjórðu hæð er íbúð íslenzka sendiráðsprestsins, sem jafnframt hefur umsjón með húsinu og minningarsafninu, sem er á þriðju hæð.

Minningarsafnið er opið mánudaga-laugardaga 17-19 og auk þess eftir samkomulagi við prestinn eða veitingamanninn. Í fremsta herberginu, sem var gestaherbergi á tímum Jóns og Ingibjargar, er fjallað um uppruna Jóns, æsku hans og skólaár.

Í stafnherberginu, sem var jafnt setustofa og vinnuherbergi Jóns, má sjá eftirlíkingar af skrifborði og stóli hans, sem varðveitt eru í Þjóðminjasafni Íslands, og aðrir munir eru í stíl þess tíma. Þar er einnig safn bóka eftir Jón og um hann.

Í þriðja herberginu, sem var áður borðstofan, er sýning, sem fjallar um ævi Jóns og störf, svo og heimilishagi þeirra hjóna. Þar sem áður var svefnherbergi hjóna, eldhús og stúlknaherbergi, er nú hýst bókasafn Íslendinga í Kaupmannahöfn. Þar eru einkum íslenzkar bækur til útlána.

Við ættum öll að koma hér við á leið okkar um Kaupmannahöfn.

Landar á ferð

Einum Íslendingaslóðum megum við ekki gleyma, nútímanum í miðborginni. Á hverjum degi eru tugir Íslendinga staddir í Kaupmannahöfn í fríi, alveg eins og við. Marga kunnuga sjáum við á Strikinu rétt eins og í Bankastræti. Munurinn er bara sá, að á Strikinu eru Íslendingar í fríi, lausir við streitu og gefa sér tíma til að spjalla. Slík samtöl geta dregizt á langinn yfir bjórglasi á næstu krá. Kaupmannahöfn er þannig alveg kjörinn staður fyrir Íslendinga til að hitta Íslendinga.

Góða ferð!

Næst er það útrás um Sjáland

Næstu skref