12. Forna Róm – Colosseo

Borgarrölt

Colosseum, Roma

Colosseo

Colosseum er einkennistákn hinnar fornu Rómar á svipaðan hátt og Péturskirkja er einkennistákn hinnar kristnu Rómar. Sporöskjulagað hringleikahúsið, sem er 188 og 156 metrar að þvermáli og rúmaði 50.000 áhorfendur, var reist árin 72-96, á stjórnarárum hinna flavísku keisara, Vespanianusar, Titusar og Dominitianusar.

Grunnform þess stendur enn að mestu, þótt það hafi verið rúið marmara og öðru skarti, sætum og heilu veggjunum. Það vekur enn ógnþrungna virðingu ferðamanna, því að ljósmyndir segja litla sögu um stærð þess og efnismagn.

Colosseum, Roma 3

Colosseo

Að utanverðu er Colosseum fjögurra hæða. Neðst er dórískt súlnarið, síðan jónískt rið á annarri hæð og kórinþurið á hinni þriðju, en næsta heill veggur á hinni fjórðu, á sínum tíma lagður bronsskjöldum. Þessi röðun grískra súlnaforma hefur æ síðan orðið byggingameisturum til fyrirmyndar. Yfir mannvirkið var dreginn tjaldhiminn, þegar þurfti að skýla áhorfendum fyrir sól eða regni.

Bygging hringleikahússins var verkfræðilegt afrek. Með þreföldum útvegg og þrautskipulögðu kerfi stiga milli veggjanna var séð um, að 50.000 áhorfendur gætu yfirgefið það á skömmum tíma. Undir sýningarsvæðinu var einnig mikið aðflutningskerfi starfsfólks, þræla og dýra, sem sjá má ofan frá, ef menn fara hring um svæðið.

Sýningar lögðust af á 6. öld, og á 13. öld var leikhúsinu breytt í virki. Á 15. öld var hafizt handa við að taka úr því grjót til byggingar Péturskirkju, Feneyjahallar og fleiri mannvirkja í Róm. Þessi vandalismi hélt áfram í þrjár aldir, unz hann var stöðvaður á 18. öld.

Næstu skref