11. Midtown – United Nations

Borgarrölt
United Nations, New York 2

United Nations – hæstu skýjaklúfarnir að baki eru Empire State vinstra megin og Chrysler fyrir miðju

United Nations

Við hefjum þessa lokakafla göngunnar um Midtown á horni 1st Avenue og 43rd Street, við aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna á bakka East River. Aðalstöðvarnar eru einna glæsilegastar séðar frá þessu sjónarhorni.

Þær voru reistar 1947-1953, hannaðar af nefnd heimskunnra arkitekta á borð við Le Corbusier, Oscar Niemeyer og Sven Markelius. Ytra útlit er talið að mestu leyti verk Corbusiers. Skýjaklúfurinn er hinn fyrsti í borginni, sem er alglerjaður að utanverðu. Í honum eru skrifstofur Sameinuðu þjóðanna.

Chrysler Building & PanAm, New York

Chrysler Building neðarlega fyrir miðju & PanAm bak við hana

Sérkennilega, lága húsið fyrir framan, þar sem fánaborgin er, hefur að geyma fundarsal Allsherjarþingsins. Að baki þess eru lágreist hús með ýmsum öðrum fundarsölum. Flesta merkustu salina má sjá, þegar fundir standa ekki yfir. Gengið er inn að norðanverðu, frá 45th Street.

Andspænis aðalstöðvunum, milli 43rd og 44th Streets, er einn af fegurstu skýjakljúfum borgarinnar, UN Plaza hótelið, með veitingasalnum Ambassador Grill í kjallaranum.

Chrysler Building

Við göngum 42nd Street frá aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Senn verður fyrir okkur á hægri hönd hinn gamli skýjaklúfur frá 1930, Chrysler Building. Hann var hannaður í art decco stíl og undir áhrifum frá bílahönnun þess tíma, þar á meðal turninn, sem minnir á vatnskassa úr módel 1929.

Um skeið, þótti þetta ljótur skýjakljúfur, en á síðustu árum hefur fólk á ný farið að meta hann sem einn hinn fegursta í borginni. Þetta var um skamman tíma hæsta hús í heimi. Ljósaskreytingin í turninum var endurnýjuð fyrir nokkrum árum.

Næstu skref