0738 Vaktmaðurinn á torginu

0738

Blaðamennska
Vaktmaðurinn á torginu
Bill Kovach og Tom Rosenstiel,
The Elements of Journalism,2001

5.
Blaðamennska er
óháður vaktari valdsins.
(Rannsóknablaðamennska)

Pressan er varðhundur. Hún fylgist með hinum fáu voldugu fyrir hönd hinna mörgu smáu. Rannsóknablaðamennska er þríþætt.
1. Eigin rannsóknir.
2. Túlkun á rannsóknum annarra. 3. Fréttir af rannsóknum annarra.

Þegar blaðamenn stunda eigin rannsóknir, vinna þeir eins og Carl Bernstein og Bob Woodward unnu fyrir Washington Post, þegar þeir komu upp um Watergate hneykslið. Þeir fóru út um víðan völl og unnu alla vinnuna sjálfir.

Þegar blaðamenn túlka rannsóknir annarra, vinna þeir eins og Neil Sheehan og félagar unnu fyrir New York Times, þegar þeir upplýstu um innihald The Pentagon Papers. Það var leyniskýrsla, sem þeir náðu í og túlkuðu fyrir fólki.

Þegar blaðamenn segja fréttir af rannsóknum annarra vinna þeir eins og Seymour Hersh vann fyrir The New Yorker, þegar hann upplýsti, hvernig National Security Agency hafði hrakað í gæðum og orðið óhæft að verjast hryðjuverkum.

Í mörgum tilvikum byggist rannsóknablaðamennska á leka upplýsinga um rannsóknir á vegum opinberra aðila, einkum síðan sólskinslög voru sett.
Í sumum tilvikum reiða blaðamenn sig of mikið á ónafngreinda heimildarmenn.

Við notkun ónafngreindra heimilda verður blaðamaðurinn að vera nákvæmur og efagjarn. Hann veitir heimildamanninum voldugt torg til að koma á framfæri ásökunum eða hugmyndum án þess að þurfa að svara fyrir sig opinberlega.

Almenningur í Bandaríkjunum er andvígur því, að blaðamenn kynni sig ekki sem blaðamenn, að heimildarmönnum sé greitt fyrir upplýsingar og að notaðar séu faldar upptökuvélar og hljóðnemar. Þetta eykur óvinsældir fjölmiðlanna. Kallaðir siðlausir.

Sum rannsóknablaðamennska getur orðið að ofsókn. Í slíkum tilvikum verða blaðamenn sérstaklega að gæta þess að hafa heimildir og staðfestingar í lagi. Uppljóstranir af slíku tagi þurfa að vera skýrar og ljósar, með engri þoku.

Sérgrein rannsóknablaðamennsku er einskonar málafærsla, oftast þrungin reiði vegna einhvers óréttlætis í þjóðfélaginu. Gott dæmi um það er Loretta Tofani, sem kom upp um nauðganir í fangelsi og lagði tilbúið mál á borð saksóknara.

Í greinum Tofani í Philadelphia Inquirer voru öll spil á borðinu, öll skjöl, læknaskýrslur, nöfn fórnardýra, nöfn nauðgara. Málið var svo klárt, að öllu var breytt í fangelsinu og allir nauðgararnir hlutu dóm samkvæmt lögum.

Mikilvægast í rannsóknablaðamennsku er að ná í gögnin. Þrátt fyrir lög um upplýsingafrelsi er enn mikil fyrirstaða kerfisins. Allt annað er fínt, en raunverulega snýst rannsóknablaðamennska í flestum tilvikum um að finna gögn.

Þar á meðal eru: The Fund for Investigative Journalism. The Alicia Patterson Foundation. The Soros Foundation’s Open Society Institute. Á vegum slíkra aðila hefur verið saminn hugbúnaður til að nota tölvutækni við rannsóknir.

Þrátt fyrir allt á hlutverk varðhundsins í miklum erfiðleikum. Margir lesendur eru beinlínis ósáttir við rannsóknablaðamennsku. Menn vilja lifa í kyrru þjóðfélagi og vilja ekki, að steinum sé velt við. Félagslegur réttrúnaður er yfirþyrmandi.

Rannsóknablaðamennska er hátindur blaðamennskunnar. Tindurinn er líka hnífseggin, þar sem hún rís andspænis félagslegum rétttrúnaði og má hvergi misstíga sig.

6.
Blaðamennska er torg
gagnrýni og málamiðlana.
(Ekki umræðusýningar)

Aukinn hraði nútímans eykur ekki aðeins hraða upplýsinga. Hann eykur hraða afbökunar og blekkinga jafnvel enn hraðar. Nú þarf enn frekar en áður að hafa auga með framgangi spuna og lyga, kaupsýslu og margvíslegs hálfsannleika.

Rifrildisstíllinn hefur komið eins og fíkniefni til að leysa vanda sjónvarps í leit þess að áhorfi og ágóða. Umræða er ódýr. Hlutverk þátttakenda er að leggja fram mikla orku, mikil viðhorf og mikla róttækni í skoðunum.

Umræðusýningar, hliðstæðir útvarpsþættir, umræða á vefnum hafa tilhneigingu til að snúast um nokkur vinsæl mál. Að baki þeirra vantar yfirleitt alla innviði blaðamennskunnar, staðfestingar, nákvæmni í vinnubrögðum.

Gera þarf þá kröfu til umræðusýninga, að þær fari eftir reglum blaðamennsku eins og aðrar birtingarmyndir hennar. Hún taki tillit til, að flestar skoðanir eru ekki á jaðrinum. Þær endurspegli sífellda málamiðlun í samfélaginu.

Sjá nánar:
Bill Kovach og Tom Rosenstiel,
The Elements of Journalism, 2001