0737 Staðfestingar og almannatengsl

0737

Blaðamennska
Staðfestingar og almannatengsl

3.
Eðli blaðamennsku er
leit að staðfestingum.
(Ekki að hlutlægni eða raunsæi, ekki að sanngirni eða jafnvægi)

Verklag á borð við að leita að fleiri heimildum um atburð, gefa sem mest upp um heimildamenn og að leita álits sem flestra sýna leit að staðfestingum.
Blaðamenn þurfa að vinsa burt orðróm, slúður, misminni og spuna.

Í raun er leitin að staðfestingum það sem greinir blaðamennsku frá skemmtun, áróðri, skáldskap og list. Blaðamennska fjallar eingöngu um sannar sögur.
Þetta er kjarni málsins, raunveruleikinn, sem blaðamenn standa andspænis.

Sanngirni við fólk getur ekki verið markmið, aðeins sanngirni við staðreyndir. Markmið blaðamennsku er ekki að forðast að gera neinn óhamingjusaman.
Blaðamaður spyr ekki: Er sagan mín sanngjörn? Slíkt dregur úr sannreynslu og staðfestingum.

1. Aldrei bæta neinu við, sem ekki var. 2. Aldrei blekkja notendur. 3. Vertu gegnsær um aðferðir þínar og tilgang. 4. Treystu eigin rannsóknum. 5. Vertu auðmjúkur. Þetta eru grundvallarreglur leitar þinnar að staðfestingum.

Skáldskapur er farinn að þykjast vera sannleikur. Framleiðendur í sjónvarpi kalla það Docudrama. Það felur í sér að ljúga. Ekki má vitna í fólk, nema tilvitnunin sé rétt. Þú birtir ekki, hvað þú ákveður að viðkomandi hafi sagt.

Reglurnar tvær um að bæta engu við og að blekkja aldrei notendur eru vitar á siglingunni um haf staðreynda og skáldskapar. Þú getur þó leiðrétt málfar. Ekki má heldur færa málsatvik til, klippa viðtalskafla inn á annan stað.

Hvernig veistu það, sem þú veist? Hverjar eru heimildir þínar. Hve mikið vita þær beint um málið? Hvaða hlutdrægni hafa þær? Eru til heimildir, sem segja annað? Hvað vitum við ekki? Þetta eru spurningar, sem leiða til gegnsæis.

“Sérfræðingar segja …” Hvað þýðir þetta? Hve margir sérfræðingar, hverjir eru þeir, sem blaðamaðurinn talaði í rauninni við. Var það gamli skólabróðirinn. Oft er verið að spara tíma. Þetta er vond blaðamennska, sem veldur grun almennings um óheilindi.

Þegar heimildarmaður, sem hefur fengið að vera nafnlaus, reynist hafa blekkt blaðamanninn, er heimilt að segja hver hann er. Samkomulag um nafnleysi gildir aðeins að því marki, að nafnlausa heimildin sé heiðarleg og fari rétt með.

Gerðu vinnuna þína sjálfur. Ekki lepja upp úr öðrum fjölmiðlum. Láttu mál vera, ef þú efast um það. Hræðslan við að vera skúbbaður hefur afsakað mörg slys í blaðamennsku. Þú verður sjálf að leita staðfestingar á fréttinni.

Gerðu ekki ráð fyrir neinu. Tékka þarf af alla hluti. Hve mikið veit ónafngreindur heimildarmaður í rauninni? Er hann hlutdrægur, getur hann freistast til að leiða þig á villigötur, felur hann sumt fyrir þér? Eru vinstri grænir virkilega andvígir íbúðum fyrir fatlaða?

Ef þú hefur að málavöxtum skoðuðum ákveðið að nota nafnlausa heimild, notaðu þessar reglur. Láttu aldrei ónafngreinda heimild hafa skoðun á nafngreindri persónu. Byggðu aldrei frétt á tilvitnunum í nafnlausa heimildarmenn.

4.
Blaðamenn eru sjálfstæðir gagnvart þeim, sem fjallað er um.
(Eru ekki almannatenglar)

Mikið er um áróðursmenn í umræðusýningum í sjónvarpi. Þar kemur fram fólk, sem grípur hvert fram í fyrir öðru og er hávært. Þar eru endalausar fullyrðingar, en nánast ekkert um nákvæmni, leit að staðreyndum. Þar er ekki blaðamennska.

Blaðamönnum er oft bannað að taka þátt í pólitísku starfi, svo sem fundum. Blaðamönnum er bannað að starfa meðfram fyrir valdamenn, æfa þá fyrir fundi. Þeir verða opinberlega að upplýsa um slíkt, ekki halda því leyndu. George Will bilaði í þessu efni.

Harðlínumenn eru gerðir að fjölmiðlungum með því að gera þá að stjórnendum umræðusýninga, álitsgjöfum eða gestum í sjónvarpi og útvarpi. Oft þykjast þeir vera óháðir sérfræðingar. Fox News er þekkt dæmi um þessi vinnubrögð.

Eftir því sem blaðamenn hafa meiri menntun og meiri þjálfun og í sumum tilvikum betri laun, verða þeir tengdari yfirstétt hugsana. Þeir öðlast heimsskoðun, hugmyndafræði og hlutdrægni hennar, -félagslegan rétttrúnað hennar.

Margir fjölmiðlar eru farnir að láta eins og skoðun á hreyfingum á hlutabréfamarkaði sé helsta áhugamál fólks. Það er afleiðing af því, að blaðamenn eru farnir að hugsa eins og yfirstéttin. Almenningur les ekki þetta efni.

Blaðamenn geta verið flokkspólitískir eða hagsmunapólitískir án þess að vera fangar þeirrar staðreyndar. Þeir verða hins vegar að hafa sannleika og staðreyndir að leiðarljósi. Þeir eru ekki hlutlausir, en eru heiðarlegir.

Sjá nánar:
Bill Kovach og Tom Rosenstiel,
The Elements of Journalism,2001