0709 Hendur í vösum I

0709

Ritstjórn
Hendur í vösum I
Roy Peter Clark & Don Fry, Coaching Writers, 2. útgáfa, 2003

Bókin er skrifuð af starfsmönnum Poynter Institute, þekktustu stofnunar Bandaríkjanna á sviði blaðamennsku og ritstjórnar. Hún kom fyrst út árið 1993. Hér er fjallað um aðra útgáfu bókarinnar, frá 2003.

Bestu efnisstjórar vita, að allir höfundar þurfa aðstoð. Þeir þjálfa fréttamenn sína með því að tala við þá. Þeir ræða vandamál og aðstoða við lausn þeirra. Þjálfun er sjaldgæf enn sem komið er. En þessum fyrirlestri er ætlað að breyta því.

Ísland: Prófarkalesarar (þröngt):
Stafsetning.
Beygingar.
Orðtök.
Bandaríkin: Copy Editors (vítt):
Prófarkir (sbr. hér að ofan).
Staðreyndir.
Stíll.

Í Bandaríkjunum höfðu yfirmenn víðtæk afskipti af texta.
Á Íslandi hafa yfirmenn lítil afskipti af texta.
Breytingin í Bandaríkjunum felst í, að óbein afskipti taki við af beinum afskiptum.

Markmið þjálfunar er, að blaðamenn verði sjálfbærir, geti sjálfir unnið vinnuna sína. Sumir verða tregir í taumi og aðrir geta aldrei orðið sjálfbærir. Fjölmiðlar þurfa smám saman að koma sér upp hópi blaðamanna, sem eru sjálfbærir.

Breyting úr hefðbundinni ritstjórn í þjálfun gerist ekki á einum degi. Efni verður í fyrsta lagi skilað of seint og í öðru lagi vantar á síður, af því að efni er ekki orðið nógu gott. Breyting þarf að gerast í áföngum til að trufla ekki rennsli í vinnslu fjölmiðilsins.

Þjálfun er hin mannlega hlið efnisstjórnar. Hún felst bara í að tala á sérstakan hátt við höfunda. Getur þú spurt góðra spurninga? Getur þú fengið fólk til að tala? Getur þú hlustað? Geturðu séð mynstur? Geturðu lesið af forvitni? Geðjast þér að sögum?

Höfundar vilja, að efnisstjórar ræði hugmyndir að efni, sýni þeim aðferðir við að sjá og segja frá, kenni þeim að fókusera og skipuleggja sögur, segi þeim, hvað virki og hvað virki ekki. Þeir vilja semsagt vaxa í starfi.

Við búum við kynslóð efnisstjóra, sem halda, að þeir kunni ekki að þjálfa, sem eru hræddir við að þjálfa, sem vilja ekki þjálfa, eða sem halda, að þeir hafi ekki tíma til að þjálfa. Flestar kennslubækur um ritstjórn hafa sleppt mannlega þættinum.

Gamla leiðin var sú, að efnisstjórar breyttu greinum eins og þeim sýndist. Talið var, að höfundar mundu svo lesa greinina daginn eftir og meðtaka hugmyndirnar að baki breytingunum. Þetta virkar ekki. Vantar það atriði, að maður tali við mann.

Efnisstjórar og höfundar þurfa að verða hamingjusamari og afkastameiri. Þessi bók á að hjálpa þeim báðum. Hér er sagt frá ýmissi tækni við að gera samstarf efnisstjóra og höfunda skilvirkara en það hefur víðast hvar verið.

Þjálfun er ekki tímafrek. Tvær mínútur við að fela verkefnið. Tvær mínútur í spurningar, þegar fréttaöflun er lokið. Ein mínúta í aðstoð við inngang og skipulag. Fimm mínútur alls. Úr þessu kemur handrit, sem vaktstjórinn þarf ekki að umskrifa á tíu mín.

Þjálfun framarlega á ferli máls sparar tíma við lok ferilsins, þegar allir eru í tímahraki. Þjálfarinn spyr góðra spurninga og hlustar á svörin. Hann lítur á fréttamanninn sem sérfræðing. Í tóni spurninganna felst stuðningur og samstarf. Hann hjálpar við að bæta söguna.

Í spurningum og samtali lætur stjórinn höfundinn vita um, hvað hann telur mikilvægt. Upplýsingar eru mikilvægar, smáatriði eru mikilvæg, góð saga er mikilvæg, lesandinn er mikilvægur. Þjálfun er beitt við stuttar fréttir og langar greinar.

Minnisatriði:
* Þjálfun er ekki tímafrek.
* Er á fremri stigum ferilsins.
* Góðar spurningar og hlustun.
* Þjálfarinn segir álit hispurslaust.
* Þjálfarinn miðlar gildismati.
* Í stuttfréttum og langgreinum.

Þjálfari tekur ekki yfir stjórn á sögunni. Hann leyfir höfundi að leiðrétta hana. Hann eykur sjálfstraust og ábyrgð höfundar á sögunni. Hann eyðir ekki sínum tíma í að laga brotna sögu. Hann er búinn að vinna sína vinnu framar í ferli sögunnar.

Þótt þessi aðferð auðveldi ritstjórn, þegar árangri hefur verið náð, er hún tímafrek í upphafi. Hún leiðir til, að sumir höfundar ná ekki að ljúka grein í tæka tíð fyrir dauðaskil. Birtingu er frestað til næsta dags og velja verður aðra grein í staðinn.

Dreifa má þessum startkostnaði á vikur eða mánuði með því að taka aðeins hluta starfsliðs í þjálfun í einu, til dæmis fimm manns í hverri viku. Það auðveldar útgáfu fjölmiðilsins frá degi til dags á yfirfærslutímanum.

Þjálfun bætir ekki bara þessa einu sögu, heldur líka allar hinar, sem síðar koma. Ef höfundur fær ekki tækifæri til að handleika villur sínar, endurtekur hann þær aftur og aftur. Þegar allt er lagað á síðustu stundu að höfundi fjarstöddum, vex hann ekki í starfi sínu.

Þegar saga er löguð að fjarstöddum höfundi, verða þeir andstæðingar og borgarastríð kemur í stað samstarfs. Með þjálfun eykst geta og sjálfstraust höfundarins. Þjálfarinn hjálpar höfundinum að átta sig á, hvað virkar í sögu. Þjálfun er andstæða fixunar, leiðréttinga.

Minnisatriði:
(Þjálfa eða laga)
* Ritstjóri þjálfar höfund
Ritstjóri lagar söguna.
* Ritstjóri þjálfar oft í ferlinu.
Ritstjóri lagar í lok skilafrests.
* Þjálfun þroskar höfund.
Lagfæring kemur sögu í blað.

Taktu ekki hendur úr vösum.
Sjá nánar:
Roy Peter Clark & Don Fry, Coaching Writers, 2. útgáfa, 2003