0717 Ritstjóri tímarits

0717

Ritstjórn
Ritstjóri tímarits
Michael Robert Evans, The Layers of Magazine Editing, 2004

Ritstjóri tímarits er persóna, sem gjarna vill lesa. Það er besta lýsingin á ritstjóra. Ritstjórinn er lesandi tímaritsins númer eitt. Ritstjórinn sér hluti, sem höfundurinn sér ekki, og getur hjálpað honum við að laga þá til birtingar.

Við verðum að loka egóið niðri í skúffu. Tímarit með því efni, sem við teljum nú vera áhugavert, lifir ekki af. Þú verður að finna lesendahóp, sem ekki fær næga þjónustu hjá þeim tímaritum, sem þegar eru til. Þá áttu möguleika á sigri.

Casey Winfrey, American Health: “Þar sem ég er einn af þeim, sem hef litla athyglisgáfu … er eitt það besta við ritstjórastarfið, að ég þarf ekki að gera neitt lengur en í 27 sekúndur. Sumir kvarta yfir truflunum, en ég elska þær.”

Sandra Bowles, Shuttle Spindle & Dyepot: “Starf ritstjóra felst lítið í texta. Mest felst það í að stýra ferli, afla greina og starfa að skipulagi. Ég hélt, að orðin skiptu mestu máli. … En við vinnum mest með höfundum og að hugmyndum.”

Við vinnum með fólki. Með höfundum í hvatningu, ögrun og andargift. Með útgefendum og semjum við þá um sál tímaritsins. Með listamönnum og ljósmyndurum, dreifingar- og auglýsingastjórum, hönnuðum og prenturum, jafnvel prófarkalesurum.

Fæstum ritstjórum tímarita er vel borgað. Nokkrar stöður bjóða sómasamleg laun. Fæst okkar lendum í greininni af því að við vildum verða ritstjórar eða ná háum tekjum. Flest okkur freistuðumst af hugmyndinni um að geta alltaf verið að lesa.

Góður ritstjóri gleðst ekki yfir að endurskrifa texta annars. Ef ritstjóri þarf að gera miklar breytingar, hefur honum mistekist einhvers staðar á leiðinni. Ritstjórn felur ekki í sér valdahroka. Hún fær ritstjóra til að líða heimskulega.

Við verðum að finna, hverjir eru lesendur okkar og hvað þeir vilji lesa. Við verðum að lesa póst frá lesendum, taka símtöl frá þeim, fara á fundi úti í bæ, þar sem við sjáum og heyrum þetta fólk. Við þurfum líka að gera kannanir.

Ritstjórn byrjar ekki á leiðréttingum á villum. Hún felst í að lesa handrit og velta því fyrir sér, hugsa sér viðbrögð lesenda og hvort handritið falli að mynstri tölublaðsins. Málfræði og setningafræði koma síðast í röðinni.

Tímarit eru númer tvö í nýstofnunum og gjaldþrotum, veitingahús eru númer eitt. Það kostar ekki mikið að stofna þau. Wooden Boat byrjaði á einni milljón króna, þar af þriðjungi að láni. Nú er það 200 milljón króna virði. Velgengni er kleif.

Sum tímarit gefast illa upp. Tekjur minnka, skorið er niður, minna er greitt fyrir myndir og texta, glansinn fer, lesendum fjölgar ekki, áskrifendum fækkar og auglýsingar minnka, meira er skorið niður, lélegri pappír notaður, o.s.frv.

Tímarit hætta af ýmsum ástæðum, lélegri forustu, skorti á stofnfé, en mest þó af gallaðri grunnhugmynd. “Sandpappírssafnarinn” mun ekki takast, því að of fáir safna sandpappír. Góður texti getur ekki bjargað vondri hugmynd.

Fólk notar peninga af tvennum ástæðum
1. Til að leysa vandamál.
2. Til að auka ánægjuna.
Vitneskja um þetta lögmál er gagnleg þeim, sem vilja ritstýra tímariti.

Look og Life voru vinsælustu tímarit heims um miðja síðustu öld. Þau voru of víðtæk, höfðu ekki fókus. Þegar sjónvarpið kom, misstu þessi almennu tímarit hlutverk sitt og auglýsendur hurfu í hrönnum. Bæði blöðin gáfust upp.

Steve Spence, ritstjóri Car and Driver: “Fókusinn er skýr. Við prófum bíla. Við erum stærsta bílablað í heimi, af því að við erum heiðarlegri en aðrir í skoðunum og kunnum betur að setja þær fram. Við efumst ekki um fókusinn. Við vitum.”

Ritstjórar, sem taka við tímaritum í rekstri, verða að skilja lesendur eins vel. Tímarit þurfa að vinna sér tryggð lesenda aftur og aftur. Tryggðin hverfur, ef ritstjórar fara að birta efni, sem fellur neðan eða utan við væntingar lesenda.

Tímarit lifa aðeins, ef þau finna lesendahóp, sem þarf þjónustu, er aðeins það getur veitt, og veita síðan þá þjónustu. Ef hópurinn er of víður, of lítill, of laustengdur, of dreifður, verður erfitt að freista lesenda og gleðja auglýsendur.

John Hamilton, ritstjóri Sierra: Við hittumst uppi í sveit tvisvar á ári og höldum einnig vikulega fundi. Ritstjórarnir eiga að fylgjast með í sínu fagi með því að lesa, nota síma og ferðast. Við tölum mikið saman um hvert tölublað.

Hamilton áfram: Við dreifum innkomnum handritum til allra á ritstjórn til að fá umsagnir. Við hittum greinahöfunda og ræðum hugsanleg verkefni. Bestu höfundarnir þekkja tímaritið og bjóða okkur líflegar hugmyndir við hæfi.

Í Bandaríkjunum er hefð fyrir því, að ritstjórnir tímarita séu fámennar og að mestur hluti efnisins komi frá föstum og lausum greinahöfundum úti í bæ. Oft er aðeins einn maður á ritstjórn. Hér er algengara, að blaðamenn séu fastráðnir.

Cheryl England, ritstjóri MacAddict: Við höfum þann fókus að vera handvirkur leiðbeinandi fyrir áhugamenn um makkann. Minnst 70% efnisins verða að fela í sér leiðbeiningar skref fyrir skref eða ráðleggingar um innkaup, skiljanlegar fólki.

Munið eftir, að enginn les tímarit til að halda ritstjóranum fjárhagslega uppi. Fólk les það bara, ef það fullnægir þörfum þess, leysir annað hvort vanda þess eða eykur ánægju þess. Skilgreina þarf markhópinn og þjónusta hann af kostgæfni.

Sjá nánar: Michael Robert Evans, The Layers of Magazine Editing, 2004