0846 Orrahríðin

0846

Fréttir 2007-2013
Orrahríðin

Evrópa skilur ekki prentfrelsi. Það er þungamiðja í bandarísku stjórnarskránni, en lætur undan síga fyrir öðru frelsi í Evrópu, svo sem persónuvernd og pólitískum rétttrúnaði. Í Evrópu eru menn dæmdir fyrir rangar skoðanir í pólitík, t.d. David Irving.

Margir menningarvitar í Evrópu gagnrýndu skrípamyndirnar í Jyllandsposten. Evrópa bannaði Yahoo að halda uppboð á minjagripum nazista. Evrópudómstóllinn hefur tekið afstöðu með persónuvernd gegn prentfrelsi.

Þegar Private Eye gerði grín að hræsni fólks út af andláti Díönu prinsessu, neituðu blaðaturnar að hafa blaðið í sölu. Skrípamynd blaðsins af syrgjendum: “Blöðin eru til skammar.” “Já, ég fékk þau hvergi.” “Fáðu mitt lánað, það er með mynd af bílnum.”

Khalid bin Mahfouz kærði árið 2004 rithöfundinn Rachel Ehrenfeld fyrir ummæli í bók, sem kom út í Bandaríkjunum og hafði verið pöntuð í 20 eintökum í Bretlandi. Þar var málið höfðað. Höfundurinn var dæmd til að eyða bókinni og greiða 250.000 $.

Rétthafar efnis hafa kúgað Microsoft, Apple og Google til að setja afritunargildrur í hugbúnað sinn. Þetta setur fólk í vanda, þegar það þarf að skipta um tölvu eða neyðist til að fá sér nýja tölvu. Þá er ekki auðvelt að yfirfæra gamalt efni. Rétthafar hræddir við netið.

Veraldarvefurinn kallar á endurskoðun höfundaréttar. Gömlu reglurnar duga ekki. Evrópusambandið hefur sakað samtök höfundaréttar um tilburði til einokunar. Finna þarf leið, sem fer bil beggja, lamar ekki dreifingu efnis og veitir samt höfundum vernd.

Meðaltraust í Evrópu á fjölmiðlum hefur farið hægt vaxandi og var árið 2006 komið upp í 63%. Á Bretlandi er það lægra, 47%, einnig lágt í Bandaríkjunum. Margir þar telja fjölmiðla halla undir stjórnvöld og margir hafa flutt sig á vefinn.

Síðustu tvö árin hefur podcasting verið mikið notað af pólitíkusum, sem flytja ávörp. Þessu efni er hlaðið niður af heimasíðu þeirra. Útgefendur blaða og tímarita nota podcasting mikið til að hressa upp á notendaviðmót sitt og gefa fólki kost á að sækja sér talað efni.

Evrópusambandið hefur frá 2006 barist gegn háu verði á reikisamtölum erlendis. Símafélögin urðu ekki við óskum þess, tóku tífalt kostnaðarverð í gjöld. Samkeppnislögmál markaðarins virkuðu ekki. Árið 2007 setti Evrópusambandið hámarksverð á slík samtöl.

Í Evrópu, t.d. í Frakklandi, er víða pólitísk andstaða gegn lokun hugbúnaðar gegn samkeppnisaðilum. Þannig er verið að undirbúa mál gegn Apple fyrir lokun iPod og iTunes og iPhone. Evrópusambandið leggur áherslu á samgöngur milli tækjategunda.

Árið 2006 urðu tekjur í Bretlandi af auglýsingum á vefnum hærri en af auglýsingum í dagblöðum. Hvor póstur um sig var með 13%. Sex árum áður var vefurinn aðeins með 1%. Staða götusölublaða hefur versnað mest. Google átti þá eftir að koma inn.

Búist er við, að hlutdeild vefsins muni enn vaxa. Svipuð sprenging verði í hlutdeild fartækja á borð við fartölvur og farsíma af auglýsingatekjum. Mikil lækkun verður á hlutdeild sjónvarpsins. Árið 2010 verða 80% notkunar fjölmiðla orðin stafræn.

Þótt tekjuhlið internetsins aukist hóflega um 17-20% á ári, er óbeina tekjuhliðin miklu stærri. Í auknum mæli er vöruúrvalið sýnilegt á vefnum, þar skoðar fólk vörurnar áður en það fer í búð að kaupa. Sú hlutdeild stækkar úr 16% í 50% tímabilið 2006-2011.

Orðið samþætting kom upp árið 1994. Nú eru komnar út kennslubækur um hana. Google Video er ein tegund samþættingar. Að öðru leyti felst samþætting meira í umræðu en í veruleika. News Corp keypti MySpace en hefur ekki samþætt það öðrum fjölmiðlum.

Streymi, “streaming”, sló í gegn árið 2006. Þá fóru hefðbundnir fjölmiðlar á fullt að bjóða aðgang á netinu að ýmsu sjónvarpsefni, svo sem kappleikjum og sjónvarpsþáttum. Koma iPod á markaðinn hefur flýtt fyrir þessari þróun.

Í sumum háskólum Bandarikjunum eru nemendur farnir að taka upp fyrirlestra til að hlusta á þá síðar í samstillingu við Power Point glósurnar. Allir eiga iPod. Sumir háskólar nota talkerfi í þessu skyni. Echo selur þeim hljóð á 10.000 $, mynd á 20.000$.

Walter Lewin, 71 árs eðlisfræðiprófessor við MIT gerir myndskeið af fyrirlestrum sínum, sem MIT setur frítt á vefinn. Þetta er notað um allan heim, því að Lewin þykir sérlega góður kennari. Fleiri kennarar hafa fylgt á eftir.

Salon er tímarit, stofnað árið 1995 upp úr verkfalli hjá San Francisco Examiner. Það fjallar um svipuð mál og dagblöð og hefur komið á samstarfi milli starfsmanna og notenda. Salon hefur mikið fjallað um hneykslismál.

Samdráttur er víða á ritstjórnum dagblaða í Bandaríkjunum. Í árslok 2006 urðu Dean Baquet, ritstjóri Los Angeles Times, og Jeffrey M. Johnson, útgáfustjóri þess, að hætta vegna andstöðu þeirra við uppsagnir blaðamanna. Upplag var 1,2 m. 1990, nú 0,8 m.

Snemma árs 2007 hætti Jack Shafer að lesa New York Times. Það var vegna þess að vefútgáfa blaðsins hafði batnað með New York Times Reader, sem er ekki nákvæm PDF-útgáfa, heldur WPF frá Microsoft.

Um allan hinn vestræna heim fellur upplag dagblaða. Nýjar kynslóðir fá fréttir sínar á annan hátt. Philip Meyer reiknaði út í gamni, að síðasta tölublaðið yrði prentað árið 2043. Auglýsingar fara líka burt á eftir lesendum.

Fyrst neituðu dagblöð að sjá þetta eða skilja. Nú eru þau vöknuð til lífsins. Þau skera niður kostnað, einkum í blaðamennsku. Sum færa sig nær áhuga unga fólksins. Fjalla meira um frægt fólk, lífsstíl og skemmtun, minna um útlönd og pólitík.

Fingraofvirkir fíklar nota lyklaborð til allra samskipta til að þurfa ekki að tala. Þeir senda skilaboð í tíma og ótíma í stað þess að hringja í farsíma. Símskeytin eru komin aftur. Og nú eru allir að senda myndir í þessum nýju símskeytum.