0814 Ísland

0814

Fjölmiðlasaga
Ísland

Guðjón Friðriksson
Nýjustu fréttir
Saga fjölmiðlunar á Íslandi frá upphafi til vorra daga
2000

“Þar komu konur fátækar og kváðust komnar að langt. Þeir spurðu þær tíðinda. Þær kváðust engin tíðindi segja, “en segja kunnum vér nýlundu nokkura”. Þeir spurðu hverja nýlundu þær segðu og báðu þær eigi leyna. Þær sögðu svo vera skyldu”.

Fréttir hafa verið sagðar á Íslandi frá ómunatíð. Getið er um sendibréf milli höfðingja á 13. öld. Prentað tímarit kom fyrst út á Íslandi 1773, “Islandske Maanedstidender”. Voru þá liðin 168 ár frá fyrsta prentaða blaðinu í Evrópu, “Nieuwe Tijdinghe”, 1605.

Íslendingar urðu læsir síðari hluta átjándu aldar. Fyrir 1750 var innan við helmingur þjóðarinnar læs, en um aldamótin 1800 var þorri fólks orðinn læs. Þetta gerðist með markvissu átaki danskra stjórnvalda þess tíma. Læsi var forsenda útbreiddra dagblaða.

1798 kom út fyrsta blaðið fyrir innlendan markað, “Minnisverð tíðindi”. Síðan komu “Klausturpósturinn” 1818, síðar “Sunnanpósturinn” og “Reykjavíkurpósturinn”. Prentfrelsi var komið á 1855 að danskri fyrirmynd í andstöðu við íslenska embættismenn.

Fyrstu blöðin voru fréttablöð með hefðbundnum fréttum og fréttum af fáheyrðum atvikum eins og tíðkast hafði erlendis. Hvert blað kom út í nokkur hundruð eintökum. Útgáfan var stopul og stundum kom aðeins eitt tölublað á ári. Sum árin kom ekkert fréttablað.

Pólitísk blöð byrjuðu að koma út í Kaupmannahöfn, “Ármann á Alþingi” árið 1829, “Fjölnir” 1835 og “Ný félagsrit” 1841. Öll voru þau gefin til að reka áróður fyrir sjálfstæði Íslands. Fleiri blöð og róttækari bættust við 1848, “Norðurfari” og “Þjóðólfur”.

Sveinbjörn Hallgrímsson var fyrsti ritstjóri Þjóðólfs og fyrsti atvinnumaður í blaðamennsku á Íslandi. Blaðið var róttækt í skoðunum og vakti töluverðan pirring yfirvalda. Bændur studdu blaðið með samskotum, enda ofsóttu embættismenn blaðið.

Þjóðólfur varð strax helsta blaðið, kom hálfsmánaðarlega. Reykjavíkurpósturinn gat ekki keppt við það. Gáfu embættismenn þá út Lanztíðindi og neituðu að prenta Þjóðólf í einokunarprentsmiðju ríkisvaldsins, en gátu ekki lengi staðið gegn dönsku lagaboði.

Með prentfrelsi 1855 lifnaði yfir blaðaútgáfu og fleiri prentvélar komu til landsins. Blöð komu út víðar en í Reykjavík. Í sumum tilvikum var nýjum blöðum stefnt gegn gömlum blöðum og skoðunum þeirra. Jón Guðmundsson var ritstjóri Þjóðólfs og jók útgáfuna.

Íslensku blöðin voru að því leyti svipuð á 19. öld og bandarísk blöð höfðu verið á 18. öld, að þau voru meiri baráttublöð en fréttablöð. Síðan urðu þau að flokksblöðum eins og bandarísku blöðin voru 1775-1830 áður en fréttablöðin tóku þar við upp úr 1830.

Þjóðólfur var dæmi um skoðanablað fremur en fréttablað. Sama gilti um Ísafold, sem Björn Jónsson stofnaði og rak lengi. Þessi blöð háðu styrjöld og gáfu tóninn um rifrildi í stað blaðamennsku, sem stundað var hér á landi fram undir lok 20. aldar.

Hér á landi varð ekki til nein pennípressa. Löngu eftir að flokkspólitísk blöð voru útdauð í Bretlandi og Bandaríkjunum voru slík blöð gefin út hér. Það var ekki fyrr en undir lok 20. aldar, að pólitíska pressan hvarf í skuggann.

Lítið hefur hér á landi um þá sérgrein pennípressu, sem hefur verið flokkuð sem skandalapressa. Hún varð öflug í Bandaríkjunum og Bretlandi um aldamótin 1900 og leiddi til margvíslegra umbóta í lögum og stjórnsýslu þessara ríkja.

Fréttablöð voru reynd snemma á tuttugustu öld, Vísir 1910 og Morgunblaðið 1913, breyttust um síðir í pólitísk blöð, sem studdu einn stjórnmálaflokk. Það var ekki fyrr en um 1975, að fréttir á prenti urðu óháðar flokkum, hálfri annarri öld á eftir Bandaríkjunum.

Ríkisútvarp hófst 1930 og varð strax helsta fréttastofnun landsins, ekki háð neinum stjórnmálaflokki einum, en undir stjórn útvarpsráðs stjórnmálaaflanna. Sama gilti um ríkissjónvarp, sem hóf göngu sína 1966 og birti fréttir, sem ekki voru vilhallar flokkunum.

Óháð fréttastofa að erlendum hætti til afnota fyrir alla fjölmiðla náði aldrei að festa hér rætur. Frá 1966 og fram undir aldamót var rekin hér á landi blanda af fréttamennsku og flokkaáróðri í helstu prentmiðlum landsins. Ísland var seint á ferð til nútíma miðlunar.

Helztu ártöl á vegi frjálsrar blaðamennsku voru 1930, er ríkishljóðvarp hófst, 1966, er ríkissjónvarp hófst og 1975, þegar hafin var útgáfa óháðs Dagblaðsins, sem síðar breyttist í DV. Síðan dóu stuðningsblöð flokka, nema Morgunblaðið, sem aðlagaði sig.

Samkeppni hófst í útvarpi og sjónvarpi 1986 með Bylgjunni og Stöð 2. Frídagblað hóf göngu sína 2001, Fréttablaðið, og varð fljótlega að öflugasta fjölmiðlafyrirtæki landsins, hornsteinninn að fjölþættu fyrirtæki, sem nú heitir 365.

Árið 2006 var fjölmiðlun lífleg á Íslandi með fjölbreyttri útgáfu og harðri samkeppni. Að flestu leyti er íslensk fjölmiðlun búin að ná erlendri fjölmiðlun að efnistökum og sumpart komin fram úr, svo sem sjá má af útrás og eftirlíkingu Fréttablaðsins í Kaupmannahöfn.

Fjölmiðlun á Íslandi fór seint af stað og var lengi hálfri annarri öld á eftir fjölmiðlun á Vesturlöndum. Á síðasta þriðjungi 20. aldar hófust breytingar, sem upp úr aldamótum höfðu þeytt íslenskri fjölmiðlun í sama farveg og lengi hafði verið um öll Vesturlönd.

Árið 2013 var staða hefðbundinna fjölmiðla orðin breytt. Morgun–blaðið var rekið með miklu tapi og aðrir prentmiðlar börðust í bökkum. Tekjur af vefnum nægðu ekki til að brúa tekjutap af hefð–bundinni útgáfu. Fjárhagslegur grundvöllur vefsins var ófundinn.

Guðjón Friðriksson
Nýjustu fréttir
Saga fjölmiðlunar á Íslandi frá upphafi til vorra daga
2000