0812 Tækniþróun II

0812

Fjölmiðlasaga
Tækniþróun II

Á þriðja áratug 20. aldar fjölgaði útvarpsstöðvum mikið. Um svipað leyti kom tal í bíómyndir. Útvarp hafði mikil áhrif á fólk. Það höfðaði til frumhvata þess. Tilfinningasömum ræðum Hitlers var útvarpað. Líka Innrásinni frá Mars eftir Welles.

1920-1924 reyndu menn að ná inn eins mörgum stöðvum og þeir gátu. Eftir 1925 varð tónlist að höfuðefni útvarps, þegar hátalarar höfðu verið endurbættir. Vinsældir útvarps voru feiknarlegar. Menn hentu fortíðinni aftur fyrir sig.

Árið 1938 skiptist útvarpsefni: 53% tónlist, 11% samtöl, 9% leikrit, 9% skemmtiþættir, 9% fréttir, 5% trú, 2% sérstakir atburðir, 2% ýmislegt. Tveir þriðju hlutar efnisins voru ferskir, einn þriðji var niðursoðinn.

Klassísk tónlist var mikil fyrst, en minnkaði síðan. Þá jókst tónlist stórra hljómsveita. Hjá sumum stöðvum var til heil hljómsveit. Fljótlega hófst söngur áhugamanna, þannig uppgötvaðist Frank Sinatra.

Vikuleg sápa fyrir heimavinnandi húsmæður var veigamesti þáttur leiklistar í útvarpi. Bitastæðari leikritum fjölgaði á fjórða áratugnum. Mikilvægustu þættir leiklistar urðu reyfarar og gamanþættir. Notendur drógu að auglýsingar.

Spjall Roosevelt forseta við arineldinn varð mjög vinsælt. Hann spjallaði við fólk, en las ekki upp útifundartexta,. Í forsetakosningunum 1940 töldu kjósendur útvarpið mikilvægara en dagblöðin í frásögnum úr baráttunni.

Bandaríkjamaður horfir á sjónvarp í 1701 tíma á ári eða hálfa fimmtu klukkustund á dag. Hann notar aðra fjölmiðla í 1898 tíma ári eða í hálfa fimmtu klukkustund, þar af les hann blöð í hálftíma á dag. Samanlagt notar hann miðla í 9 klst á dag.

CD-diskurinn kom til sögunnar árið 1982, veraldarvefurinn 1991, stafrænar kvikmyndir slógu í gegn 1995 og stafrænt sjónvarp kom til Íslands árið 2005. Íslendingar lifa og vinna í samþættu miðlunarþjóðfélagi nútímans.

Fjölmiðlunarþjóðfélag er, þar sem framleiðsla, úrvinnsla, dreifing og notkun upplýsinga er umfangsmesti þáttur efnhagslífs og þjóðfélags. Þar fer sívaxandi tími fólks í að nota fjölmiðla og tæki samskipta, svo sem síma og tölvu.

Sífellt fjölgar starfsfólki í fjölmiðlun, fólki, sem hefur að meginhlutverki að framleiða upplýsingar, vinna úr þeim, dreifa þeim. Fjölmiðlunarþjóðfélagið er nýtt skref í þróun samfélagsins frá fyrri grunnum þess í landbúnaði og iðnaði.

Störf í fjölmiðlun fela meðal annars í sér blaðamennsku, ritstjórn, kerfisstjórn, leiklist, sjónvarpsframleiðslu, þáttastjórn, auglýsingaöflun, vefsíðugerð, söng, almannatengsl, ljósmyndun, upptöku, skoðanaskipti.

Fjölmiðlar og fjölmiðlunartækni samþættast í stafrænu formi. Sama grunntæknin er notuð til að dreifa öllum tegundum fjölmiðlunar, texta, hljóði og myndum í samþættu kerfi eins og internetinu. Ekki þarf lengur sérstaka braut fyrir hvern miðil.

Árið 1930 áttu sex keðjur fjórðung af blaðaupplagi Bandaríkjanna. Nú á Gannett-keðjan yfir 100 fréttablöð. Keðjur hafa myndast, sem ná yfir dagblöð, útvarp, sjónvarp og internetið. Sumar keðjur ná yfir til annarra greina atvinnulífsins.

Nýir miðlar fara oft framhjá erfiðleikum og flöskuhálsum eldri miðla. Nú eru nemendur í tímum með reiknitölvur, sem gera marklaus fyrri próf í minni á margföldunartöflur. Hjálpartækið hefur gert margföldunartöfluna óþarfa.

Mestu áhrif tölvunnar eru á aðra miðla. Tölvan gerir alla miðla stafræna, þannig að úr verður almennur fjölmiðill, sem tengir saman tölur, orð, gröf, myndir, myndskeið og hljóð í einn pakka, sem tölvan geymir og miðlar eftir þörfum.

Í framtíðinni verða skrifaðir textar ekki geymdir í bókum, heldur breytast bókasöfn í gagnagrunna. Dagblöð, sjónvarpsfréttir og aðrar upplýsingaveitur eru víða orðin aðgengileg á veraldarvefnum, svo sem á visir.is og mbl.is. Google skannar milljónir bóka árlega.

Ljósmyndir og ritsími 1830, rúlluprentvélar 1840, ritvélar 1860, úthafskaplar 1866, sími 1876, kvikmyndir 1894, þráðlaus ritsími 1895, segulbönd 1899, útvarp 1906 og sjónvarp 1923. Sameiginlega er þetta bylting í samgöngum og miðlun.

Fyrst var landbúnaðarbyltingin, síðan viðskiptabyltingin, þá iðnbyltingin og núna upplýsingabyltingin. Fyrsti raunverulegi fjölmiðillinn byggðist á rúlluprentvélum og góðum pósti. Markaðsrannsóknir fjölmiðla hófust 1911.

Fréttablöð fyrir minnihlutahópa hafa styrkst í Bandaríkjunum, t.d. dagblöð á spænsku. Í Þýskalandi hafa þau átt erfitt uppdráttar, því að lesendur telja venjulegu, þýsku blöðin vera betri og áreiðanlegri. Unga fólkið þar fjarlægist tyrknesku og nálgast þýsku.

Gott dagblað er samfélag sem talast við. Það fellir Nixon úr embætti. Það andar á háls valdamanna. Það stjórnar umræðunni í samfélaginu. Þessi valinkunna stofnun er núna í útrýmingarhættu. Dagblöð hafa miðla mest tapað á internetinu.

Dagblaðaútgáfa í Bandaríkjunum er um áramótin 2007-2008 42% minna virði en hún var fyrir þremur árum og 26% minna virði en hún var fyrir ári. Þetta er ekki bylgja, heldur hrun. Margir forstjórar dagblaða verða ekki lengur í bransanum árið 2015.

Nú er það innblað dagblaðanna sem gildir. Þar er plássfrekt efni, sem hefur meira flatarmál en hægt er að hafa á vefnum. Þar eru risastórar myndir og risastór gröf. Pappírinn heldur uppi samkeppni út á flatarmálsfræðina.

Sjá nánar:
David Crowley & Paul Heyer, Communication in History, 2003
Mitchell Stephens, A History of News, 1988
Joseph Straubhaar & Robert LaRose, Media Now, 2006