0816 Veraldarvefurinn

0816

Fjölmiðlasaga
Veraldarvefurinn

Tilkoma vefsins hefur þrýst dagblöðum og sjónvarpi í vörn. Ungt fólk temur sér ekki að nota hefðbundna fjölmiðla og snýr sér fremur að vefefni og leikjum eða persónumiðlum á borð við MySpace og Facebook. Farsími er að taka við af tölvum.

Ný tækni hefur þvingað dagblöðin til að fara aftur út í lengri texta, meiri fréttaskýringar og bakgrunn. Texti blaðanna er sumpart orðinn lengri og hægari en hann varð stystur. Hinn aldagamli fréttaskortur hefur breyst í offlæði frétta.

Brotthvarf kynslóðar sjötta áratugarins úr faðmi fjölskyldunnar inn í ótryggan heim hippa og bítla ógnaði bandarískum lífsháttum. Sjónvarpið átti erfitt með að taka á þessu og fjalla um ungt fólk, sem ekki vildi horfa á sjónvarp.

Áhorfstölur í sjónvarpi slengdu saman öllum á aldrinum 18-49 ára á þeirri forsendu, að það væri markhópur auglýsenda. Í rauninni voru þetta tveir aðskildir hópar, sem höfðu ólíkan áhuga á sjónvarpi. Enda eru sjónvarpsstjörnur miðaldra.

Með því að taka upp tungutak, fatnað, hegðun og tónlist hinna byltingarsinnuðu ungmenna reyndi sjónvarpið að afvopna andstöðuna og selja henni vörur um leið. Þetta var öfugt við ritskoðun, ekki var reynt að einangra svokallað vandamál.

Allt er stafrænt núna, tölur, orð, myndir, hljóð, síðan bragð, lykt og ef til vill tilfinningar, -allt þetta verður skráð stafrænt, geymt og kallað upp eftir þörfum í stafrænu ástandi. Það er stýringarbylting.

Frumgerð tölvunnar var spunavél Jacquard árið 1800, hún notaði gataspjöld til að vefa mynstur. Miðlunarvélar og tölvur eru nauðsynlegar nútímaþjóðfélagi. 1890 var farið að nota gataspjaldavélar við þjóðskrá. Þá varð til forveri IBM, Hollerith.

Tölvan er komin í hring. Hún er komin að uppruna sínum í spunavél Jacquard. Hún er ekki lengur reiknivél, heldur er hún samþættingarvél, sem vefur mynstur í þjóðfélagið.

Bandaríski herinn hóf internetið snemma á sjöunda áratugnum með ARPANET. Fljótt varð það alþjóðlegt. Veraldarvefurinn var fundinn upp af Tim Berners-Lee, Robert Cailliau og fleiri starfsmönnum Evrópsku Kjarnorkurannsóknastöðvarinnar í Genf.

Landsnet urðu til í Kanada og Frakklandi árið 1988, árið eftir á Norðurlöndum, þar með Íslandi. Ísland notar viðhengið .is. Mikil barátta hefur verið hjá ríkjum, sem ekki nota rómönsk tungumál, að fá pláss fyrir sína bókstafi á netinu.

Veraldarvefurinn er þannig gerður, að hann tekur við öllu, texta, myndum, hljóði. Með veraldarvefnum varð internetið að almenningseign, að sameiginlegu tæki til skemmtunar, innkaupa og tæki til að útvarpa sinni eigin persónu.

Heimilistölvur lögðu grundvöll að tölvutækni almennings fyrir 1990. Til sögunnar komu stýrikerfi á borð við Macintosh og Windows, sem voru notendavæn. Veraldarvefurinn er viðbótarskref á þeirri braut og hefur það umfram að nota opinn hugbúnað.

Skrift varð að handhægu tæki til miðlunar, þegar papýrus kom til sögunnar í Egyptalandi. Öldum saman eftir það var handritum rúllað upp í rúllur, sem gátu orðið margir metrar á lengd. 24 rúllur þurfti fyrir eitt af Hómersljóðum.

Á fyrstu öldum e.Kr. var farið að binda bækur úr papýrus eða skinni. Á tímum Forngrikkja voru 99% handrita rúllur, á 5. öld voru 90% handrita bækur. Með bókum var auðvelt að finna ákveðinn stað í bókinni. Index, orðaskrár, urðu til.

Rúllur voru endurskrifaðar í bækur. Nú stöndum við andspænis hliðstæðu verki, að endurskrifa bækur í stafrænt form. Þar með framlengjum við ævi þess, sem í bókum stendur, því að þær eyðast með tímanum, en stafræna formið eyðist ekki.

Cassiodorus fann upp indexið í páfagarði. Eftir indexinu var hægt að finna bækur í bókahillum. Með indexi í bókum var hægt að lesa og nota bækur án þess að gera það línulega. Bækur urðu ekki lengur bein lína, heldur mósaík.

Til þess að finna hluti áður fyrr, urðu menn að vita, hvar þeir voru eða þekkja einhvern sem vissi það. Nú þurfa menn ekki að vita, hvar þeir eiga að leita. Þeir þurfa ekki að muna og það út af fyrir sig er mikil bylting.

Á miðöldum kom ekki bara indexið, heldur líka blaðsíðutöl, hlaupandi bókartitill á hverri síðu. Allt slíkt felur í sér tilraun til að gera efni aðgengilegt á fleiri vísu en línulegan. Við notum mest uppflettirit á daglegum önnum.

Dagar vísindarita og vísindatímarita eru taldir. Allt fræðiefni verður gefið út á netinu. Dómnefndir munu áfram vinna við að meta vísindalega vinnu og munu gera það á netinu, svo að áfram verður hægt að sjá, hvort um vísindi er að ræða.

Leitarvélar leita í innihaldi texta, en ekki í titli rits. Nú er hægt að finna hvað sem er á svipstundu á veraldarvefnum, til dæmis með Google. Síðustu árin hefur verið feikileg þróun í afköstum og svigrúmi leitarvéla.

Ef ekki væru myndir innifaldar í Veraldarvefnum, væri hann ekki notaður af tugum milljóna manna og fyrirtækja. Hann kemur ekki bara í stað bréfa og skýrsla, hann endurspeglar líka tímarit, dagblöð og auglýsingar. Nú er komið hljóð og hreyfing.

Veraldarvefurinn er mesta fjölmiðlabyltingin. Allt er á vefnum, þar á meðal myndir líðandi stundar af snjóbreiðum Suðurskautsins og eyðimörkum á Mars.

Sjá nánar:
David Crowley & Paul Heyer, Communication in History, 2003
Mitchell Stephens, A History of News, 1988