0828 Síminn 2000

0828

Fjölmiðlasaga
Síminn 2000

Draumatækni unga fólksins er ekki internetið eða veraldarvefurinn. Það er ekki DVD-spilarinn eða iPod heldur. Það er farsíminn, sem hefur fangað huga unga fólksins meira en nokkuð annað tæki nútímans.

Ritsími hófst 1844, sími 1876, kapall 1948, gervihnettir 1962. Þráðlaus farsími er nú kominn í hendur nærri allra Evrópubúa og er farinn að breyta siðum og menningu þjóðfélagsins. Samband fólks eykst á einn veg og minnkar á annan veg.

Í þriðja heiminum vantaði víða símalínur, svo að farsíminn er fyrsti sími margra. Í Evrópu eru margir þeir, sem áður höfðu línu, hættir því, af því að þeir telja símann sinn þurfa að vera hluta af sér, en ekki hluta af húsbúnaði íbúðar.

Fyrstu farsímar höfðu takmarkað dreifingarsvæði, takmarkað samband og voru ekki notendavænir. Magnarar og flutningskerfi löguðu svigrúmið og gerðu víraflækjur óþarfar. Flutningsgetan jókst með míkróbylgjum, gervihnöttum og ljósleiðurum.

Þótt þráðlaus farsími hafi verið til síðan 1946, var flutningsgeta hans svo lítil, að hann náði ekki fram að ganga fyrr en löngu síðar. Skilaboðatæki komu til sögunnar á 7. áratugnum. 1978 var nútímatækni í farsímum orðin nægileg.

Símafyrirtæki veita margþætta þjónustu, staðbundin símtöl, langlínusímtöl, símtöl um allan heim, tölvupóst, nettengingu, veraldarvef, tónlist, útvarp og sjónvarp. Áður var einokun á símaþjónustu, en nú berjast nokkur fyrirtæki um markaðinn.

Framfarir í skiptiborðum drógu úr vinnu við símtöl og gerðu fólki kleift að hringja hvert sem er í heiminum. Stafræn kerfi komu til sögunnar 1962, bættu flutningsgetu, flutningsgæði og leiddu til þæginda eins og númerabirtingar.

GSM varð staðall fyrir Evrópu og mestan hluta heimsins, en Bandaríkin notuðu tvo staðla í senn, sem tafði fyrir þróun farsíma. Nú er GSM farið að keppa við bandarísku staðlana innan Bandaríkjanna. Norðurlönd og Japan leiða þróunina.

GPRS er milli GSM og 3G. Það eru símar, sem eru sífellt í sambandi. Þá er hægt að tengja við fartölvur og hengja þær þráðlaust á internetið með Bluetooth-hugbúnaði. GPRS hentar líka vel SMS (short message service) skilaboðum.

GPRS hefur enn þann galla, að verð símtala hækkar oft gífurlega, þegar menn eru komnir út fyrir heimasvæðið og nota “roaming”, reiki, til að fá þjónustu annarra símafyrirtækja. Ýmis annar kostnaður hefur aukið grun í garð GPRS. ESB setti þak á gjaldtöku.

Nú geta menn haldið númeri sínu, þótt þeir flytjist milli svæða og símafélaga. Verð á símaþjónustu hefur haldist hátt, en er byrjað að lækka vegna samkeppni frá internetinu, sem smám saman nær yfir meira af heildarumsvifum símanotkunar. Skype er vinsælt.

Stafræna hefur stóraukið magn og gæði þráðlausra kerfa. Þriðja kynslóð síma, 3G og WiFi gera kleift samband milli síma og internets. Nýir gervihnettir og nýjar tíðnir á landi valda því, að þráðlaust samband er samkeppnishæft við breiðband.

Símaþjónusta býður margs konar þjónustu umfram það, sem þekktist í gamla daga, talhólf, númerabirtingu. Símtöl eru líka að færast á netið, þar sem þau kosta ekki nema brot af fyrri kostnaði, einkum langlínusamtök, sem verða næstum frí.

Nýja-Sjáland ráðgerir að hætta við hefðbundinn síma og vera algerlega með símann á internetinu árið 2010. Með því að sameina síma og internet næst mikill sparnaður í skiptistöðvum, sem veldur því, að netsími nálgast að vera ókeypis.

Motorola hóf gervihnattasíma 1998. Er lítið notaður, einkum af pólförum, njósnurum og stríðsfréttamönnum. Verðið hefur þó lækkað upp á síðkastið og símatækin komast nú fyrir í vasa. Gervihnattasímar hafa gildi á Íslandi, því að landið er strjálbýlt.

Upplýsingahraðbrautin er að verða að veruleika. Tölvan, síminn, skipuleggjarinn, tónlistarspilarinn, staðsetningartækið og myndavelin eru allt að verða eitt. Þetta fæst allt á viðráðanlegu verði, aðgengilegt fyrir alla. En dreifbýlið verður oft útundan.

Upplýsingahraðbrautin er viðkvæm fyrir truflunum, til dæmis vegna hryðjuverka eða náttúruhamfara. Hún skapar spennu milli þeirra, sem vilja hnýsast í hagi fólks af öryggisástæðum og þeirra, sem vilja vernda frið fólks heima hjá sér.

Dæmi um tvær skoðanir á mikilvægu máli. Með staðsetningartæki í síma, getur þú kallað á hjálp í 112 og í miðstöðinni sést þá staðsetning þín nákvæmlega. Það auðveldar hjálp. En gerir líka kleift að fylgjst með öllum þínum ferðum. T.d. til viðhaldsins.

Auðvelt var að hlera koparlínur gömlu símann. Næstum ómögulegt er að hlera ljósleiðara. Ný lög hafa verið sett í Bandaríkjunum, sem eiga að auka hleranir og verja landið gegn hryðjuverkum. Aðrir telja, að því verði beint gegn mótmælum.

Fólk forðast hugsanlega fjölmiðla, sem því finnst vera leiðinlegir eða ósvífnir, eða því kann að finnast það ekki skilja miðil til að njóta hans. Tilvist fjölmiðils er mikilvægur þáttur í ákvörðunum um, hvaða verkefni henti honum miðlinum best.

Upplýsingatækni veldur röskun á atvinnuháttum. Ný störf koma í stað gamalla, þegar til langs tíma er litið. Til skamms tíma missa hins vegar stórir hópar vinnu án þess að ráða við nýju þekkingarstörfin. Margir lenda í hlutavinnu.

Í sumum tilvikum auka störf í miðlun tilfinningu fyrir færibandinu, bjóða meiningarlausa endurtekningu. Það getur leitt til launalækkunar. Sum störf lyftast og ýta burt þeim, sem ekki ráða við þau. Önnur störf veita lífsfyllingu.

Sjá nánar:
Joseph Straubhaar & Robert LaRose,
Media Now
Understanding Media, Culture and Technology,
2006